Dæmdur fyrir tvær nauðganir og áreitni

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn þremur konum sömu nóttina, á hóteli á Suðurlandi þar sem þau höfðu öll verið á árshátíð fyrirtækja sem þau unnu hjá. Brotin áttu sér stað í febrúar síðastliðnum.

Maðurinn er fundinn sekur um að hafa nauðgað tveimur kvennanna og kynferðislega áreitt þá þriðju.

Konurnar lágu allar sofandi í rúmum sínum hótelinu þegar maðurinn hóf að brjóta gegn þeim. Tvær þeirra vöknuðu við að maðurinn var að hafa samræði við þær en sú þriðja þegar hann strauk læri hennar innan klæða.

Gekk á milli herbergja

Í dómnum segir að maðurinn hafi í fyrst farið inn í herbergi einnar konunnar, strokið læri hennar, fært nærbuxur til hliðar og haft samræði við hana, gegn vilja hennar. Hann hafi notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðnum vegna svefndrunga og ölvunar. Konan ýtti ákærða ofan af sér um leið og hún vaknaði og varð þess vör að ákærði var að hafa samræði við sig. Í kjölfarið yfirgaf hann herbergið.

Því næst fór ákærði inn í annað herbergi þar sem önnur kona lá sofandi í rúmi ásamt fleirum. Hann strauk læri hennar að innanverðu, innan klæða og rass utan klæða. Konan vaknaði við þetta og vísaði manninum út úr herberginu. Hann kvaðst við yfirheyrslur hjá lögreglu hafa verið að leita að tóbaki sem hann taldi sig hafa tapað í herberginu fyrr um kvöldið, en hann hafði komið þangað ásamt fleirum að hlusta á tónlist.

Þegar manninum hafði verið vísað út úr öðru herberginu fór hann inn í það þriðja, þar sem hann klæddi þriðju konuna úr nærbuxunum og stakk fingrum inn í leggöng gegn vilja hennar. Mun hann hafa notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðnum vegna ölvunar og svefndrunga. Hann hætti um leið og hann varð þess áskynja að konan var vöknuð. Fór hann í kjölfarið inn á salerni herbergisins þar sem lögregla handók hann skömmu síðar.

Við handtökuna var hann með nærbuxur þriðju konunnar í brjóstvasa sínum. Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði hann um misskling að ræða varðandi þá konu, enda taldi hann að hún hefði boðið honum til sín. Hvað fyrstu konuna varðaði sagðist hann ekki hafa áttað sig á að hún hefði upplifað að hann væri að brjóta gegn henni. Varðandi aðra konuna sagðist hann vera að leita að tóbaki, líkt og áður sagði.

Einbeittur ásetningur

Í dómi héraðsdóms segir að framburður mannsins hafi ekki verið skýr að öllu leyti, en framburður brotaþola hafi verið skýr frá upphafi. Framburður brotaþola fékk einnig stuðning í framburði vitna og var hann því lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu.

Þá er tekið fram í dómnum að brot ákærða hafi öll verið framin á stuttum tíma sömu nótt og að ásetningur hans til brotanna hafi verið einbeittur. Hann hélt brotum sínum áfram þrátt fyrir að hafa verið hent út af tveimur hótelherbergjum og hætti ekki fyrr en komið var að honum. Allir brotaþolar voru sofandi er ákærði kom að þeim og var honum það ljóst. Er litið til þess við ákvörðun refsingar.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn skyldi sæta fangelsi í fjögur ár, að frádregnu gæsluvarðhaldi frá því í febrúar. Þá er honum gert að greiða tveimur kvennanna sem hann nauðgaði, 1.500.000 krónur í miskabætur og þeirri þriðju sem hann áreitti, 800.000 krónur. Þá er honum gert að greiða allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert