Jón Trausti farinn af landi brott

Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal.
Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Jón Trausti Lúthersson, sakborningur í  rann­sókn­ á mann­drápi í Mos­fells­dal, er farinn úr landi til Alicante á Spáni. Grímur Grímsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að Jón Trausti hafi flogið út í gærkvöldi en ekki var talin ástæða til þess að fara fram á farbann. 

Frétt mbl.is: Jón Trausti laus úr gæsluvarðhaldi

Greint var frá því á mbl.is fyrir fáeinum dögum að Hæstirétt­ur hefði snúið við dómi héraðsdóms um að Jón Trausti Lúth­ers­son sætti áfram­hald­andi gæslu­v­arðhaldi vegna málsins. Sveinn Gestur Tryggva­son sætir hins vegar enn gæsluvarðhaldi til 21. júlí. 

„Staðreyndin er sú að miðað við dóm Hæstaréttar um gæsluvarðhaldskröfuna mátti lesa í þá niðurstöðu að ekki var farið fram á farbannskröfu,“ segir Grímur. Vísir greindi fyrst frá málinu. 

Sexmenningarnir sem voru handteknir vegna málsins hafa enn stöðu sakborninga. Komi til þess að yfirheyra þurfi Jón Trausta eða ákæra hefur lögreglan nokkur úrræði. 

„Almennt séð varðandi fólk erlendis getum við sent réttarbeiðni til viðkomandi lands og óskað eftir því að viðkomandi verði yfirheyrður. Í versta falli þegar verið er að ákæra menn er hægt að krefjast framsals.

Grímur segir að rannsókn málsins miði vel og býst við að hún klárist upp úr næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert