Kom heim úr vinnu með umkomulausar 11 ára tvíburasystur

Lögreglumaður í Keflavík tók umkomulausar systur með sér heim.
Lögreglumaður í Keflavík tók umkomulausar systur með sér heim. Mynd/Úr safni

Lögreglumaður í Keflavík fór heim úr vinnunni með 11 ára umkomulausar tvíburasystur. Systurnar voru á ferðalagi með föður sínum sem var óvænt fluttur á Landspítalann í Reykjavík vegna gruns um heilablæðingu.

Víkurfréttir greina frá því að faðir stúlknanna hafi verið sóttur með sjúkrabíl á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fóru dætur hans með á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Faðirinn var svo fluttur á Landspítalann en stúlkurnar urðu eftir.

Skyndilega umkomulausar

Starfsfólk HSS hafði svo samband við lögreglu þar sem óvissa var um hvað ætti að gera við stúlkurnar. Þær voru mjög skelkaðar og hræddar um föður sinn og voru skyndilega orðnar umkomulausar í Reykjanesbæ.

Lögreglumaður sótti stúlkurnar og fóru þau á lögreglustöðina í Keflavík þar sem haft var samband við móður þeirra, sem var stödd í Las Vegas, bandaríska sendiráðið og barnaverndaryfirvöld. Lögreglumaður, sem vill ekki láta nafn síns getið, ræddi við stúlkurnar á meðan og náði vel til þeirra að eigin sögn og náði að hugga þær.

Móðirin ekki hrifin í fyrstu 

Hann útskýrði fyrir þeim að óvissi ríkti um hvað ætti að gera við þær að svo stöddu og þá hafi önnur þeirra spurt hvers vegna þær gætu ekki bara farið með honum heim? „Hvað segir maður þá við 11 ára gamalt barn sem spyr svona?“ segir lögreglumaðurinn í samtali við Víkurfréttir.

Í fyrstu var móðir stúlknanna ekki hrifin að þeirri hugmynd og vildi alls ekki að dætur hennar færu heim með ókunnugum manni á Íslandi. Lögreglumaðurinn brá þá á það ráð að senda henni vinabeiðni á Facebook ásamt því að sendiráðið ræddi við konuna og féllst hún þá á hugmynd dóttur sinnar.

Ánægðar með móttökurnar á Íslandi 

„Það var því ekki um neitt annað að ræða en ég hringdi í konuna mína og sagði henni að ég væri að koma heim með tvær ellefu ára stelpur úr vinnunni, eins og ekkert væri eðlilegra“, segir lögreglumaðurinn í samtali við Víkurfréttir.

Systurnar fóru svo heim með lögreglumanninum þar sem þær léku sér við börn hans og pantaðar voru pizzur. Daginn eftir fóru þær í bakaríið, Víkingaheima og var slegið til grillveislu. Síðar um daginn var stúlkunum skutlað upp í flugstöð þar sem þær tóku flug til Los Angeles og móðir þeirra sótti þær. Faðir stúlknanna var svo útskrifaður heill heilsu daginn eftir.

Að sögn móður stúlknanna voru þær ánægðar með dvölina á Íslandi. Þær voru hræddar um föður sinn en lögreglan hafi séð til þess að upplifun þeirra af Íslandi hafi þrátt fyrir allt verið ævintýri sem þær muni seint gleyma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert