Mun færri fá vaxtabætur en í fyrra

26.107 einstaklingar fá í dag greiddar vaxtabætur.
26.107 einstaklingar fá í dag greiddar vaxtabætur. mbl.is/Golli

Mun færri einstaklingar fá greiddar vaxtabætur nú, en á síðasta ári, en fækkunin nemur 12,1 prósenti á milli ára. 26.107 einstaklingar fá í dag greiddar almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda sem þeir greiddu af húsnæðislánum árið 2016, samkvæmt álagningarseðli ríkisskattstjóra. Fá þessir einstaklingar greiddar samtals 4,3 milljarða króna, sem er lækkun upp á 16,8 prósent frá því á síðasta ári. Fjárhæðir vaxtabóta eru hins vegar óbreyttar á milli ára.

Lækkun vaxtabóta nú, eins og fyrri ár, skýrist fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila sem batnaði sem um 13,4 prósent á síðasta ári samanborið við árið 2015. Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og sömuleiðis lækkun vaxta og auknar tekjur og þar með lækkandi vaxtabyrði. Það fækkar því enn í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir, en sú þróun hefur verið samfelld í sex ár.

Um 16,5 prósent fjölskyldna í landinu, eða tæplega 33 þúsund fjölskyldur af um 197 þúsund, eru nú með skuldir umfram eignir en á síðasta ári var það hlutfall 18,2 prósent.

44 þúsund einstaklingar fá barnabætur

Þá fækkar einnig í hópi þeirra sem fá greiddar barnabætur og lækka heildargreiðslur ríkisstjóðs vegna þeirra bóta um 0,5 prósent á milli ára. Sú niðurstaða endurspeglar að tekjur barnafjölskyldna hafa hækkað meira en viðmiðunarfjárhæðir barnabóta.

Tæplega 44 þúsund einstaklingar fá nú greiddar barnabætur, sem er 2,9 prósent fækkun á milli ára. Fjárhæð meðalbóta hækkar þó um 2,4 á milli ára en allar fjárhæðir barnabótakerfisins voru hækkaðar um 3 prósent frá fyrra ári. Samtals nema greiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta 9,3 milljörðum króna.

16,5 milljarðar lagðir beint inn á reikninga

Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 21,4 milljarðar króna, en 3,5 milljörðum af þeirri upphæð verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir standa því alls 17,9 milljarðar króna sem liðlega 160 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðarmótin.

Um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þar af eru 16,5 milljarðar lagðir beint inn á bankareikninga. Fjöldi þeirra sem ríkið á kröfu á, til að mynda vegna vangreiddra staðgreiðsluskyldra skatta eða eftirágreiddra skatta sem verða á gjalddaga á síðari hluta ársins, er um 130 þúsund manns. Sú fjárhæð nemur alls 46 milljörðum króna, en hjá hluta þessa hóps koma barnabætur á móti. Inneignirnar verða greiddar út í dag.

Álagningarseðlar eru aðgengilegir á vef ríkisskattstjóra: skattur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert