Engu mátti muna að alvarlegt slys hlytist af þegar ferðamönnum var hleypt út úr rútu við Sólheimasand á Suðurlandsvegi nýlega. Lögreglan á Suðurlandi biður ökumenn að gæta sérstakrar varúðar í nýrri færslu á Facebook-síðu embættisins, en vísað er til atviks þar sem áhyggjufullur vegfarandi varð vitni að háskalegri lagningu rútunnar í vegkanti og farþegunum hleypt út.
Segir í færslu lögreglunnar að farþegarnir hafi sumir hlaupið beint yfir veginn í veg fyrir aðra bíla sem þar áttu leið hjá. „Lögreglan hvetur ökumenn hópbifreiða sem annarra sem hyggja á að stöðva til að skoða fallegt umhverfi að velja örugga staði til þess og koma skýrum skilaboðum til farþega sinna um að gæta ýtrustu varúðar þegar þeir yfirgefa ökutækið,“ segir í færslu lögreglunnar.