Ölvuð með börn í bílnum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bíl á Reykjanesbraut við Sprengisand um fimmleytið í gærdag. Konan sem ók bílnum er grunuð um að hafa verið ölvuð við aksturinn, en hún var með börn sín tvö, 5 og 6 ára gömul, í bifreiðinni.  Börnin voru þá ekki fest í sérstaka barnabílstóla líkt og lög gera ráð fyrir. 

Var farið með ökumanninn og börnin á lögreglustöð, þangað sem fulltrúi barnaverndaryfirvalda og faðir barnanna mættu. Ökumaðurinn var þá látinn laus að lokinni sýnatöku.

Lögregla stöðvaði einnig bíl á Lambhagavegi við Reynisvatn um sexleytið í gærdag. Var þar á ferð karl sem grunaður er um að hafa ekið bílnum undir áhrifum fíkniefna, auk þess að hafa ekið bílnum þrátt fyrir ökuleyfismissi.

Einnig var stöðvaður bíll í Auðbrekku undir miðnætti í gær. Sá sem þar var á ferð er einungis 16 ára og hefur því ekki enn öðlast ökuréttindi. Hann er aukinheldur grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, sem og að hafa verið með fíkniefni í fórum sínum. 

Ökumaðurinn, ásamt 17 ára farþega hans, voru fluttir á lögreglustöð þar sem málið var unnið með aðkomu foreldra og tilkynnt barnaverndaryfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert