Ákvörðun Skipulagsstofnunar ógild

Nýtt Fosshótel í Mývatnssveit sem opnað var um síðustu helgi.
Nýtt Fosshótel í Mývatnssveit sem opnað var um síðustu helgi. mbl.is/Birkir Fanndal

Nýtt Fosshótel, sem var opnað við Mývatn um síðustu helgi, var mögulega reist án þess að fram færi nauðsynlegt umhverfismat. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti að umhverfismeta hótelið.

Hótelið er á verndarsvæði Mývatns og Laxár og segir í tilkynningu frá Landvernd að samtökin muni krefjast tafarlausra aðgerða stjórnvalda til að tryggja megi ýtrustu umhverfisvernd vegna starfsemi hótelsins, í kjölfar úrskurðarins.

Segir þar að Landvernd hafi krafist þess í desember í fyrra að felld yrði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að hótelið þyrfti ekki í umhverfismat, og að bygging þess hafi hafist í óleyfi síðastliðið sumar.

„Úrskurðarnefndin féllst í dag á kröfu Landverndar, og ógilti ákvörðunina, þar sem hún væri ekki byggð á lögmætum forsendum. Af því leiðir að ekki er grundvöllur fyrir leyfisveitingum Umhverfisstofnunar og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps,“ segir í tilkynningu Landverndar.

Mývatn eigi að njóta vafans

„Landvernd fagnar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, sem undirstrikar mikilvægi þess að umhverfismeta stórar framkvæmdir sem hafa mengun í för með sér á verndarsvæði Mývatns og Laxár. Hins vegar gagnrýna samtökin að nefndin skuli ekki hafa úrskurðað fyrr í málinu.

Þegar er búið að reisa hótelið og rekstur þess er hafinn. Sú háttsemi hóteleigenda að byggja í leyfisleysi og í trássi við lög er og verður algerlega ólíðandi. Landvernd mun þegar í stað leita eftir fundum með viðkomandi stjórnvöldum um þessa nýju stöðu málsins. Jafnframt vonast samtökin til að þetta mál leiði til betri vinnubragða í sambærilegum framkvæmdum í framtíðinni.

Einsýnt er að nú fer af stað málsmeðferð um umhverfismat hótelsins og starfsemi þess. Landvernd telur ekki að rekstur þess geti haldið áfram eins og ekkert hafi ískorist. Gæta verður ýtrustu krafna um umhverfisvernd við Mývatn. Mývatn á að njóta vafans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK