Niðurstaða um nýjan völl í haust

Laugardalsvöllur í núverandi mynd.
Laugardalsvöllur í núverandi mynd. ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ákvörðun um það hvaða leið verður farin við stækkun Laugardalsvallar verður að öllum líkindum tekin í haust. Nokkrar hugmyndir hafa verið kynntar fyrir hagsmunaaðilum sem meta nú hvaða leið verður farin.

Pét­ur Marteins­son hjá Borg­ar­brag, sem kem­ur að verk­efn­inu ásamt þýska fyr­ir­tæk­inu Lag­ar­dére Sport, seg­ir í sam­tali við mbl.is að um sé að ræða val á milli þriggja sviðsmynda. Í fyrsta lagi uppgerðs leikvangs eins og hann er í dag, í öðru lagi nútímalegri knattspyrnuvallar og í þriðja lagi fjölnota íþróttavallar.

Borinn verði saman kostnaður með tilliti til reksturs og tekna og svo sé það í höndum hagsmunaaðila að taka ákvörðun um hvaða leið verði farin. Helstu hags­munaaðilar verk­efn­is­ins eru KSÍ, Reykja­vík­ur­borg sem eig­andi vall­ar­ins og ríkið þar sem um þjóðarleik­vang er að ræða.

Pétur segir alla aðila vera tilbúna að skoða málið gaumgæfilega. „Það vita allir að staðan í dag er ekki ásættanleg og tíminn vinnur ekki endilega með okkur,“ segir hann og bendir á breytingu á leikjafyrirkomulagi landsleikja í Evrópu þannig að leikirnir fari fram í mars og nóvember. „Við erum ekki með löglega velli í það eins og stendur. Það þarf því að taka ákvörðun sem fyrst.“

Auk þess sé gríðarlegur áhugi á bæði kvenna- og karlaknattspyrnu hér á landi, sem kalli á bættar aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert