Umhverfi framhaldsskólanna breytt

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntamálaráðuneytisins bíður það verkefni að greina framhaldsskólakerfið í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða í umhverfi framhaldsskólanna. Þetta segir Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra en hann var gagnrýndur fyrir að setja af stað vinnu við athugun á kostum og göllum hugsanlegrar sameiningar Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans.

Nú er þeirri vinnu lokið og var niðurstaða Kristjáns Þórs eftir athugunina að frekari rök þyrftu til þess að mæla með sameiningu skólanna. Frá því var greint á mbl.is í gær.

„Ég vil undirstrika það, að ég hélt því alltaf fram að þetta væri fyrst og fremst til athugunar og að engar ákvarðanir væri búið að taka. Þrátt fyrir það kusu margir að tjá sig með þeim hætti að það lægi fyrir að þetta ætti að gera,“ segir Kristján Þór.

Hann segir það einmitt verkefni stjórnvalda að skoða stöðugt hvar megi betur gera. „Hvort sem það er til vinsælda fallið eða ekki.“

Framhaldsskólastigið stendur frammi fyrir mörgum áskorunum

Framhaldsskólastigið stendur frammi fyrir mörgum áskorunum á komandi misserum. Nemendum mun fækka um nokkur hundruð á hverju ári næstu þrjú árin, bæði vegna náttúrulegrar fækkunar nemenda og styttingar náms til stúdentsprófs.

„Umhverfið er allt að breytast. Það eru aðrar kröfur gerðar til náms í dag. Áhugasvið og áherslur nemenda eru að breytast, og starfsfólks sömuleiðis. Í ljósi þessa sem er nefnt er full ástæða til að menntakerfið sé opið fyrir breytingum til að mæta kröfum tímans hverju sinni,“ segir Kristján Þór.

„Ef þetta er rætt af skynsamlegu viti og af yfirvegun þá eigum við að binda vonir við það að við náum að komast að niðurstöðu um breytingar á þessu umhverfi sem góð sátt getur orðið um,“ segir Kristján Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert