Nemendur fá öll ritföng ókeypis

Í tilkynningu segir að framtakið endurspegli ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Í tilkynningu segir að framtakið endurspegli ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. mbl.is/Eyþór Árnason

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að framvegis verði grunnskólabörnum í Mosfellsbæ veittur nauðsynlegur hluti námsgagna, þeim að kostnaðarlausu. Það felur í sér að sveitarfélagið leggur til nauðsynleg ritföng sem keypt verða í gegnum örútboð Ríkiskaupa.

Gert er ráð fyrir að um 1.650 nemendur verði við nám í grunnskólum Mosfellsbæjar haustið 2017 og að áætlaður kostnaður við sameiginleg innkaup verði um 8,3 milljónir króna. Breytingin tekur gildi strax í haust.

Með framtakinu fetar Mosfellsbær í fótspor bæjarfélaga eins og Sandgerðisbæjar, sem síðasta haust útvegaði öllum grunnskólanemendum í bænum gjaldfrjáls námsgögn.

Í tilkynningu frá Mosfellsbæ segir að gjaldfrjálst skyldunám stuðli að jafnræði til náms óháð efnahag og endurspegli einnig ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að ekki megi mismuna börnum meðal annars vegna félagslegrar stöðu eða stöðu foreldra. Þá er tekið fram að sameiginleg innkaup grunnskóla á nauðsynlegum námsgögnum fyrir grunnskólanemendur séu mun hagkvæmari og kostnaðarminni en núverandi fyrirkomulag. Með nýju fyrirkomulagi er einnig hugað að umhverfissjónarmiðum þar sem markvisst er lagt upp með sam- og endurnýtingu á námsgögnum.

„Ég styð heilshugar að stuðlað sé að hagkvæmari innkaupum þegar kemur að námsgögnum og öðrum búnaði sem er notaður í starfsemi Mosfellsbæjar. Þessi ráðstöfun skilar sér í lækkun útgjalda fyrir barnafjölskyldur í bænum og kemur sér eflaust vel á mörgum stöðum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Nemendur í Mosfellsbæ munu fá öll nauðsynleg skólagögn ókeypis frá …
Nemendur í Mosfellsbæ munu fá öll nauðsynleg skólagögn ókeypis frá og með næsta hausti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert