Stærri fiskar í Grindavík en í Amsterdam

Hinn 8 ára gamli Mink frá Hollandi var alsæll með …
Hinn 8 ára gamli Mink frá Hollandi var alsæll með krossfiskinn sem skipverjar á Þinganesi gáfu honum við komuna til Grindavíkur. mbl.is/Hanna

Hressir skipverjar og haugur af humri voru eitt það fyrsta sem tók á móti hollenskri fjölskyldu við komu þeirra til Íslands. Fjölskyldan hyggst dvelja í Grindavík í tvær vikur en þau komu til landsins í fyrradag. Þótt veðrið á fyrstu dögum fjölskyldunnar á Íslandi væri ekki upp á marga fiska var þó annað að segja um það sem fyrir augu bar í höfninni í Grindavík þar sem var verið að landa bæði humri og öðru sjávarfangi.

Skipið Þinganes frá Þorlákshöfn kom að höfn í Grindavík í hádeginu á föstudag að loknum fjögurra daga túr. Löndun á 31 kari af humri var við það að hefjast þegar Hollensku fjölskylduna og blaðamenn og ljósmyndara mbl.is bar að garði, en skipverjar tóku glaðir við spurningum forvitinna ferðamannanna.

Skipið Þinganes frá Þorlákshöfn kom að höfn í Grindavík í …
Skipið Þinganes frá Þorlákshöfn kom að höfn í Grindavík í hádeginu á föstudag. Hér eru skipverjarnir Einar og Óskar hressir, alveg að verða búnir í vinnunni að loknum fjögurra daga túr. Löndun við það að hefjast en þeir komu með 31 kar af humri í land. mbl.is/Hanna

„Við ætlum að vera í Grindavík í tvær vikur. Þá erum við hérna á einum stað og við keyrum síðan allt um kring,“ segir hollenska listakonan Gemma Leys í samtali við mbl.is. Spurð hvers vegna Grindavík varð fyrir valinu segir Gemma að þau hafi viljað vera nálægt Bláa lóninu og að stutt væri einnig út á flugvöll. Þaðan hyggjast þau fara í dagsferðir næstu tvær vikurnar.

„Fyrsta sem við gerum er að fá okkur frískt loft og horfa í kring um okkur, sjá hvernig lífið gengur fyrir sig. Við gistum hér ekki langt frá og erum búin að vera vakandi síðan fimm í morgun,“ segir Gemma.

Strax á fyrsta degi sáu þau lífið við höfnina, fuglana á sveimi og fiskinn sem var verið að landa og hittu meðal annars sjálfan bæjarstjórann. Hinn átta ára gamli Mink var afar áhugasamur um humarinn en skipverji á Þinganesi gaf honum ferskan humar og krossfisk sem þvælst hafði með fengnum. „Við erum frá Amsterdam en þetta er stærra og flottara en þar, stærri höfn og stærri fiskar“ segir Gemma.

Hollenska fjölskyldan, þau Koen, Kim og Gemma ásamt þeim Mink …
Hollenska fjölskyldan, þau Koen, Kim og Gemma ásamt þeim Mink átta ára og Manu 6 mánaða, hyggjast dvelja í Grindavík í tvær vikur. Humarinn var í miklu uppáhaldi hjá Mink. mbl.is/Hanna
Nýveiddur humar var eitt það fyrsta sem tók á móti …
Nýveiddur humar var eitt það fyrsta sem tók á móti hollensku fjölskyldunni. mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert