Fordómar í garð forsætisráðherra

Ana Brnabic er nýr forsætisráðherra Serbíu.
Ana Brnabic er nýr forsætisráðherra Serbíu. AFP

Ana Brnabic er nýr forsætisráðherra Serbíu, en hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti auk þess að vera fyrsta samkynhneigða manneskjan til að sitja í þessari valdamiklu stöðu.

Brnabic hóf stjórnmálaferil sinn fyrir aðeins ári þegar hún var skipuð í embætti ráðherra opinberrar stjórnsýslu og sveitastjórna í ríkisstjórn Aleksandars Vucic í ágúst 2016. Þar áður starfaði hún í tíu ár hjá ýmsum alþjóðastofnunum og á vegum hins opinbera í Serbíu, en Brnabic stundaði nám í Bretlandi og Bandaríkjunum. Eftir stórsigur Aleksandars Vucic í serbnesku forsetakosningunum í apríl síðastliðnum valdi hann Brnabic til að taka við forsætisráðherrastólnum en staðan er ein sú valdamesta innan serbneska stjórnkerfisins.

Fordómar gagnvart samkynhneigðum útbreiddir

Tilnefningin olli hörðum viðbrögðum, bæði á serbneska þinginu og víðar í samfélaginu. Fordómar gagnvart samkynhneigðum eru útbreiddir í landinu, en samkvæmt skýrslu ILGA Europe um Serbíu, sem afhent var framkvæmdastjórn Evrópusambandsins árið 2011, telja 67% aðspurðra að samkynhneigð sé sjúkdómur. Hjónabönd samkynhneigðra eru auk þess ólögleg í landinu, í stjórnarskrá Serbíu, sem skrifuð var árið 2006, segir að hjónaband sé einungis ætlað á milli karls og konu.

Vill nútímavæða samfélagið

Óhætt er að segja að tilnefning Brnabic sé söguleg, en hún er fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann á Balkanskaganum og aðeins sá fimmti í heiminum. Þegar ný ríkisstjórn var samþykkt þann 29. júlí sagðist Brnabic vilja sjá nýja vinda blása um landslag serbneskra stjórnmála. „Ég hef háleit markmið þegar ég lít til framtíðar,“ sagði hún í ræðu sinni. „Setjum fortíðina saman þangað sem hún tilheyrir, í fortíðinni.“ Hún hvatti einnig þingið til að slást í lið með sér til að „nútímavæða samfélagið okkar“ með því að endurreisa hagkerfi landsins og taka á spillingu.

Nýtur stuðnings forsetans

Brnabic er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki, en hún nýtur stuðnings flokks Aleksandars Vucic, serbneska Framsóknarflokksins, sem hefur meirihluta á þingi landsins. Óvíst er þó að Brnabic verði sterkur forsætisráðherra þar sem margir innan flokksins, auk ýmissa í minni flokkum stjórnarbandalags forsetans, eru ósáttir við tilnefningu hennar. „Ana Brnabic er ekki minn forsætisráðherra,“ sagði Dragan Markovic-Palma, formaður stjórnarflokksins Unified Serbia. Brnabic nýtur þó fulls stuðnings forseta landsins.

Ekki málsvari hinsegin fólks

Ýmsir mannréttindahópar telja að tilnefning Brnabic sé stórt skref í réttindabaráttu hinsegin fólks í Serbíu, þó hafa ganrýnisraddir borist frá hinsegin fólki þar í landi, en þær beinast að mestu að því að Brnabic hefur ekki málað sig sem málsvara hinsegin fólks. Á síðasta ári studdi hún ekki frumvarp til að þrýsta á um lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra. „Ég er ekki talsmaður L.G.B.T.-samfélagsins,“ sagði Brnabic í viðtali við Vice Serbia á síðasta ári. „Ég vil ekki vera stimpluð sem samkynhneigður ráðherra, alveg eins og samstarfsmenn mínir vilja ekki vera skilgreindir sem gagnkynhneigðir,“ bætti hún við.

Hinsegin fólk í Serbíu hefur lengi þurft að horfast í augu við mismunun og hótanir. Til að mynda var Gay Pride-gangan í Belgrad bönnuð í þrjú ár í röð eftir að hópur mótmælenda réðst að göngunni árið 2010.

Í viðræðum við ESB

Brnabic tekur við embætti á mikilvægum tíma fyrir Serbíu, en landið býr sig nú undir inngöngu í Evrópusambandið á meðan það reynir að halda góðu sambandi við Rússland. Aðilar frá bæði Serbíu og Evrópusambandinu hafa opinberlega lýst yfir bjartsýni um að Serbía muni verða Evrópusambandsríki í lok þessa áratugar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert