Skortur hjúkrunarfræðinga hefur áhrif á sjúklinga

Á Landspítalanum er skortur á hjúkrunarfræðingum á öllum deildum. Framkvæmdastjóri …
Á Landspítalanum er skortur á hjúkrunarfræðingum á öllum deildum. Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir betri mönnun hjúkrunarfræðinga hafa áhrif á það hvernig sjúklingum reiðir af. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Á Landspítalanum er skortur á hjúkrunarfræðingum heilt yfir. Þetta hefur áhrif á sjúklingana og Landspítalinn finnur greinilega fyrir þeirri ákvörðun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga að sækja ekki um á Landspítalanum í vor. Á bráðalyflækningadeild eru meðal annars allar vaktir keyrðar á undirmönnun. Dæmi eru um að munur á grunnlaunum hjúkrunarfræðinga hjá Landspítala og sveitarfélögum sé allt að 70.000 krónur.

Vantar 130 hjúkrunarfræðinga

„Við vorum búin að áætla það núna í vor að miðað við þarfir sjúklinga vildum við bæta við okkur svona 130 hjúkrunarfræðingum,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í samtali við mbl.is. 

Að sögn Sigríðar er Landspítalinn stærsti vinnustaður landsins og þar starfa 1400-1500 hjúkrunarfræðingar. „Það er talað um að hjúkrunarfræðingar séu svona hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á sjúkrahúsum, þannig að við finnum bara mjög mikið fyrir því ef við náum ekki að manna vel,“ segir Sigríður.

Útskrifum ekki nægilega marga

Sigríður segir alþjóðlegan skort á hjúkrunarfræðingum og hann fari stigvaxandi. Hér á landi eru ýmsir þættir sem hafa áhrif. „Við til dæmis útskrifum ekki nægilega marga hjúkrunarfræðinga,“ segir Sigríður og bætir við að á sama tíma séu stórir árgangar að hefja töku lífeyris ásamt því að þörfin fyrir hjúkrunarfræðinga sé að aukast.

Ein ástæða þess að þörf fyrir hjúkrunarfræðinga er að aukast er sú að þjóðin er að eldast. „Það eru aldraðir sem nýta mest heilbrigðisþjónustu,“ segir Sigríður. Ástandið í samfélaginu er einnig áhrifaþáttur. „Það er bara svo margt annað í boði og hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttur vinnukraftur. Það er lágt atvinnuleysishlutfall og mikil eftirspurn eftir starfsfólki,“ segir Sigríður.

Á Íslandi útskrifast ekki nógu margir hjúkrunarfræðingar ár hvert til …
Á Íslandi útskrifast ekki nógu margir hjúkrunarfræðingar ár hvert til þess að manna þær stöður sem vantar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hefur áhrif á sjúklingana

Sigríður bendir á að hjúkrunarfræðingar sæki einnig mögulega í auknum mæli í önnur störf til þess að losa úr vaktavinnuumhverfinu. „Jafnvel þótt mörgum finnist þetta hugsanlega mest spennandi starfsvettvangurinn þá reynir það [vaktavinna] á fjölskyldulífið.“

Að sögn Sigríðar eru margar rannsóknir sem styðja það að sjúklingum reiði betur af sé góð mönnun hjúkrunarfræðinga. „Það sem gerist ef við höfum ekki nægt fólk er að þá er meira álag á þá sem fyrir eru og við þurfum að reiða okkur á að þau vinni yfirvinnu, langt umfram það sem þau hafa sjálf áhuga á,“ segir Sigríður að lokum.

Vonar að staðan lagist með haustinu

Svanhildur Sigurjónsdóttir, aðstoðardeildarstjóri bráðalyflækningadeildar Landspítalans, segir deildina finna gríðarlega fyrir því að nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar hafi ekki skilað sér á spítalann. „Við réðum einn í sumarafleysingu í sumar en við erum bjartsýn á að þessir krakkar skili sér með haustinu,“ segir Svanhildur.

„Við erum að keyra á undirmönnun allar vaktir, svo koma líka sumarlokanir sem við finnum mikið fyrir,“ segir Svanhildur og bætir við þau séu bjartsýn á að fleiri hjúkrunarfræðingar bætist í hópinn í haust. Að sögn Svanhildar var nýlega auglýst eftir fjórum hjúkrunarfræðingum á deildina og þegar viðtal við blaðamann átti sér stað átti eftir að vinna úr þeim umsóknum.

Svanhildur Sigurjónsdóttir aðstoðardeildarstjóri á bráðalyflækningadeild Landspítalans.
Svanhildur Sigurjónsdóttir aðstoðardeildarstjóri á bráðalyflækningadeild Landspítalans. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Munur á grunnlaunum 70.000 krónur

Blaðamaður mbl.is hafði samband við Elísabetu Brynjarsdóttur, nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing, til þess að athuga hvort hópurinn hefði í huga að sækja um á Landspítalanum í haust. „Þetta datt svolítið niður eftir að sumarið byrjaði, það fóru bara allir að vinna á sínum stöðum,“ segir Elísabet en bætir við að það sé vert að taka stöðuna aftur fyrir haustið.

Elísabet segir ákvörðun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga aðallega kjaratengda. Að sögn hennar eru dæmi um að munur á grunnlaunum hjúkrunarfræðinga hjá Landspítala og sveitarfélagi sé allt að 70.000 krónur. „Nú erum við búin að prófa annað. Við höfum fengið að upplifa það að geta verið í fríi, geta verið veik, finna minna álag og vera ekki búin á því eftir hverja vakt,“ segir Elísabet.

Mikil samheldni í hópnum

Að sögn Elísabetar leituðu flestir í árganginum í hjúkrunarstörf. „Það fer alltaf einhver hópur í flugfreyjuna en það er samt mun stærri hópur að leita eftir því að vinna sem hjúkrunarfræðingar, sem er jákvætt að mínu mati,“ segir Elísabet.

Elísabet segir mikla samheldni hafa ríkt í hópnum fyrir sumarið og er hún ánægð með það hversu margir virðist áhugasamir um kjaramál sín og réttindi. „Ég hef ekki lagt það fyrir en það væri mjög áhugavert að hittast í lok sumar og taka stöðuna. Þessu er ekkert lokið, fólk er ennþá ósátt og þótt einhverjir myndu fara að skila sér inn á spítalann er enginn að samþykkja það sem er í boði þar launatengt,“ segir Elísabet ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert