Búið að kemba átta kílómetra svæði

Lítið er vitað annað en að vitni sáu mann í …
Lítið er vitað annað en að vitni sáu mann í fossinum á fimmta tímanum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitirnar hafa nú leitað á um það bil átta kílómetra svæði, eða frá Gullfossi að Brú­ar­hlöðum, efsta hluta Hvítár­gljúf­urs, að manni sem féll í fossinn á fimmta tímanum í dag. Leit verður haldið áfram til miðnættis og eitthvað verður fylgst með ánni í nótt, en leit hefst svo að nýju í fyrramálið.

Um klukkan hálfellefu í kvöld voru 145 björgunarsveitarmenn skráðir í aðgerðina á 28 tækjum; bílum, bátum og jetski, en alls hafa yfir 150 manns tekið þátt í leitinni. 

Björgunarsveitarmenn eru nú að leita á brún gilsins við mjög erfiðar aðstæður þar sem brúnin er hál, eins eru bátar að leita neðar í Hvítá. Ferðaþjónustuaðilar hafa einnig lánað búnað til leitarinnar. Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar á staðnum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bárust tilkynningar frá fólki við Gullfoss um mann í fossinum. Enginn sá manninn þó detta ofan í fossinn. Talið er hugsanlegt að bíll sem stendur á plani Gullfoss tengist þeim sem fór í fossinn, en ekki eru þekkt nánari deili á honum, hvorki aldur né þjóðerni. Þá hefur enginn stigið fram sem var á ferð með manninum.

Veðurskilyrði eru ágæt til leitar, bjart er í veðri og engin úrkoma en þó nokkuð vindasamt.  

Frá leitinni í kvöld.
Frá leitinni í kvöld. mlb.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert