Troðið á tjaldsvæðunum

Það er þröng á þingi á tjaldsvæðinu að Hömrum við …
Það er þröng á þingi á tjaldsvæðinu að Hömrum við Kjarnaskóg. Tjaldvagnar og hjólhýsi taka sitt pláss. Ljósmynd/Grétar Hannesson

Tjaldsvæðin á Akureyri, bæði við Þórunnarstræti og að Hömrum við Kjarnaskóg, voru fullsetin í gærkvöldi og þurfti að loka fyrir frekari gestakomur. Staðahaldarar muna einu sinni eftir sambærilegri stöðu síðustu ár. Sömu sögu var að segja af tjaldsvæðinu í Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.

Í dag er hreyfing á fólki og því alls ekki útilokað að tjaldsvæði sé að finna í blíðunni fyrir norðan. Tjaldsvæðið við Kjarnaskóg er eitt það stærsta á landinu.

„Svo þétt var orðið á tjaldsvæðunum í gærkvöldi að við urðum að vísa fólki frá,“ segir Ásgeir Hreiðarsson hjá Útilífs- og umhverfissmiðstöð skáta sem rekur tjaldsvæðin á Akureyri. Hann segir að eðli málsins samkvæmt sé alltaf hreyfing á gestum tjaldsvæða og þá losni pláss fyrir nýja gesti. Trúlega verði það staðan í dag. Þá lögðu margir bílum sínum á tjaldsvæðunum í gær en hafa nú fært þá. „Þá myndast eyður sem aðrir gestir geta gripið.“ 

Elta sólina norður

Íslendingar hafa margir hverjir kvartað sáran yfir veðrinu í sumar en nú síðustu daga og þá næstu er blíða fyrir norðan og í dag er spáð allt að 24 stiga hita. Margir hafa því hugsað sér gott til glóðarinnar, ákveðið að elta góða veðrið og bruna norður í land.

Svona er veðurspáin kl. 15 í dag á Norðausturlandi.
Svona er veðurspáin kl. 15 í dag á Norðausturlandi. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Rekstur tjaldsvæða byggist á veðri,“ segir Ásgeir. Hann segir júní hafa verið „dapran“ hvað reksturinn varðar sökum veðurs. 

En nú er staðan heldur betur önnur. Ásgeir hefur ekki staðfestar tölur um fjöldann á tjaldsvæðunum en giskar á að um 2.000 manns séu á tjaldsvæðinu að Hömrum og 4-500 að Þórunnarstræti. Hann man aðeins einu sinni til þess að áður hafi þurft að vísa fólki frá tjaldsvæðinu að Hömrum. Það var að hann minnir árið 2004. Svæðið er mjög stórt og þar eru sextán stórar tjaldflatir.

Ásgeir segir að flestir hafi tekið því af miklum skilningi að ekki var hægt að taka við fleirum á tjaldsvæðin í gærkvöldi. Hann segist sömuleiðis hafa skilning á þeim vonbrigðum sem verða hjá fólki sem er komið langan veg til að tjalda. „Þó að við getum tekið ansi vel við þá eru tjaldsvæði takmörkuð auðlind.“

Engin er ástæða er fyrir fólk að snúa við sé það á leiðinni norður til að tjalda. Mörg góð tjaldsvæði eru á Norðurlandi. Hér má finna lista yfir þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert