Fjarskiptatruflanir á Vestfjörðum

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Brynjar Gauti

Ljósleiðari á Vestfjörðum fór í sundur klukkan hálftvö í dag, með þeim afleiðingum að truflanir eru á útvarpssendingum, sjónvarpssendingum og netsambandi. Ljósleiðarastrengurinn rofnaði milli Krossholts og Þverár og getur valdið truflunum um alla Vestfirði. 

Veitufyrirtæki sleit óvart ljósleiðarastrenginn. Búið er að staðsetja bilunina og unnið er að því að laga strenginn. Samkvæmt upplýsingum frá Báru Mjöll Þórðardóttur, upplýsingafulltrúa Vodafone, geta viðskiptavinir Vodafone á Vestfjörðum þó áfram búist við truflum á meðan á viðgerð stendur.

Ekki bara áhrif á viðskiptavini Vodafone

Bára segir að rofið hafi þó ekki aðeins áhrif á þá sem nota þjónustu Vodafone, heldur geti það haft áhrif á alla viðskiptavini veitufyrirtækisins. Hún ætli þó ekki að gefa upp um hvaða veitufyrirtæki sé að ræða.

Símasamband er enn í lagi, að sögn Báru, en þó getur verið að samband náist ekki í heimasíma sem fá samband í gegnum netið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert