Gleðiljómanum kippt undan honum

Héðinn Máni Sigurðsson.
Héðinn Máni Sigurðsson. mbl.is/RAX

Aðstandendur hins 17 ára gamla Héðins Mána Sigurðssonar, sem greindist með krabbameinsæxli á þriðja stigi í höfði fyrr á árinu, hafa sett af stað söfnun fyrir hann. Héðinn, sem býr með ömmu sinni í Vogum á Vatnsleysuströnd, þarf að fara nánast daglega á Barnaspítala Hringsins í lyfja- og geislameðferðir, með tilheyrandi kostnaði.

Þetta hefur verið mikið áfall

„Héðinn Máni er 17 ára unglingur með allt lífið fram undan, hann hefur sína drauma og þrár. Nýlega tók hann mikið þroskastökk og hafði hann séð fyrir sér bjarta framtíð, hann var kominn með vinnu í sumar og hafði ætlað sér að vera duglegur að vinna og safna sér upp pening. Á einu augabragði var gleðiljómanum kippt undan honum og þarf hann nú að horfast í augu við erfiðleikana sem fram undan eru. Þetta hefur verið mikið áfall en baráttuviljinn er svo sannarlega til staðar hjá Héðni Mána og hann er mjög brattur þrátt fyrir þessar raunir sem á hann eru lagðar.“

Þetta skrifaði Bríet Sunna Valdemarsdóttir á Facebook-síðu sína í gær, þar sem hún hóf söfnunina. Viðbrögðin við færslunni hafa verið gríðarleg, en henni hefur verið deilt yfir 700 sinnum. Eru aðstandendurnir afar þakklátir að eigin sögn.

Héðinn kom fram í viðtali á mbl.is fyrr á árinu, en hann hefur leyft fólki að fylgjast með meðferðinni í gegnum snjallsímaforritið Snapchat. Þar sagði hann veikindi sín fyrst hafa komið fram sem eyrnabólgueinkenni í hægra eyra. Í kjölfarið hafi heyrnin farið versnandi og fór hann þá til háls-, nef- og eyrnalæknis. Þaðan var hann sendur til krabbameinslæknis, þar sem hann var greindur með þriðja stigs krabbameinsæxli í höfði.

Greiningar- og meðferðarferli Héðins hefur staðið yfir frá því í júní í fyrra og frá þeim degi hefur kostnaðurinn verið mikill. Til að byrja með fór hann í lyfjameðferðir og í kjölfarið hófst geislameðferð. Um þessar mundir fer hann í lyfjameðferðir á hverjum mánudegi, þar sem hann er lagður inn í sólarhring, og í geislameðferð alla virka daga.

Hefur misst 20 kíló

„Hann fær frí um helgar en meðferðin hefur sett strik í reikninginn þar sem æxlið er á erfiðum stað hvað varðar geislameðferð og hlýtur hann miklar kvalir í tengslum við hana,“ segir í færslunni.

Aðstandendur Héðins eru bjartsýnir, en læknar segja hann svara lyfjameðferð vel. Hann er þó töluvert mikið veikur um þessar mundir, á erfitt með að halda niðri fastri fæðu og hefur misst um 20 kíló.

Þá segja aðstandendur hans veikindin einnig taka á hann andlega. Önnur ungmenni nýti sumarið í ferðalög og skemmtanir, en hann þurfi að vera heima. Stuðningurinn sem hafi borist eftir að söfnunin var sett af stað í gær sé því ómetanlegur.

Óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér

Héðinn stundaði áður nám við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, en ein­beit­ir sér nú að því að ná aft­ur fyrri heilsu. Óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér, og er söfnunin einnig hugsuð fyrir það sem enn er óljóst að sögn aðstandenda.

Kostnaðurinn fram að þessu hefur miðast við aldur hans. Hann verður hins vegar 18 ára 1. ágúst næstkomandi og eftir þann tíma mun hans hluti kostnaðar hækka að sögn aðstandenda.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning 0142-05-006602, kennitala 150558-3019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert