Lengi að telja 31 unga á sundi

Toppönd á sundi með 31 unga.
Toppönd á sundi með 31 unga. Ljósmynd/Sigurjón Guðmundsson

„Ég var lengi að telja þá alla því þeir voru alltaf að fara í kaf. Þetta var alveg glæsilegt,“ segir Sigurjón Guðmundsson áhugaljósmyndari sem tók í gær mynd af toppönd með hvorki meira né minna en 31 unga á sundi á Skorradalsvatni í Skorradal.

Á vatninu voru einnig tvær aðrar toppendur, önnur þeirra var með þrjá unga og hin var með níu. Ekki er ólíklegt að hluti af þessum 31 unga hafi tilheyrt þeim. Sigurjón sem er duglegur að mynda fugla hefur áður rekið augun í toppendur með stóran hóp af ungum en aldrei álíka fjölda. Ekki er óalgengt að toppendur næli sér í unga frá öðrum öndum.

Ljósmynd/nonnidump

 Uglan er flott en langar að mynda haförn

„Ég var á leiðinni út að taka myndir,“ segir Sigurjón þegar mbl.is sló á þráðinn til hans. Hann segist nýta hvert tækifæri til að mynda fugla en bendir á að hann sé það heppinn að kona hans deilir þessu áhugumáli með honum.

Spurður um hvaða fugl sé skemmtilegast að mynda nefnir hann ugluna sem hann segir að alltaf sé gaman að mynda. „Við reynum líka stundum að mynda haförninn sem verpir í Kolgrafafirði,“ segir Sigurjón en haförninn er víst ekki á sama máli og hafa þau hjónin ekki náð mynd af honum nýverið. Þau eiga þó eina mynd af haferni sem er nokkurra ára gömul en þau halda áfram að reyna.  

Ljósmynd/nonnidump

 „Óvenjumikill fjöldi“

„Þetta er óvenjumikill fjöldi,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur. Hann segir algengt að toppendur sanki að sér ungum. Hvers vegna er ekki vitað með vissu. „Þær kunna ekki að telja. Aðrir ungar álpast frá mæðrum sínum og sækja í fjöldann,“ segir Jóhann Óli spurður um háttalag toppandarinnar. Í Skorradalnum og við Skorradalsvatn er varp toppanda þétt. 

Hann bendir einnig á að stundum eru þær nokkrar saman með ungahóp og skiptast á að passa hann meðan þær fá sér að éta. Útilokað er að ein og sama toppöndin eigi allan þennan ungahóp því þær verpa um 10 til 12 eggjum og eðlilegt er að afföllin á slíku varpi séu um 75%. Ef það kemur til dæmis slæmt kuldakast og mikil úrkoma er erfitt að halda hita á svona mörgum ungum, að sögn Jóhanns Óla. 

Ljósmynd/nonnidump

 „Það getur verið erfiðara að verja svona stóran hóp. Þær reyna að passa að illfygli nái til unganna en það er erfiðara,“ segir hann spurður um kosti og ókosti stærðar ungahópsins. 

Toppöndin flokkast undir fiskiönd og  lifir helst á hornsílum. Þær kafa eftir ætinu líkt og kafendur en toppendur lifa helst á hornsílum. Ungarnir éta sjálfir og eru því ekki upp á foreldra sína komnir hvað þetta varðar.  

Ljósmynd/nonnidump
Ljósmynd/nonnidump
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert