Ekkert eftirlit með fitufrystingu

Í byrjun leit sárið svona út eftir meðferðina.
Í byrjun leit sárið svona út eftir meðferðina.

„Því er auðvitað tekið mjög alvarlega þegar fólk verður fyrir tjóni,“ segir Haraldur Briem, settur landlæknir, en eins og Sunnudagsblað Morgunblaðsins greindi frá á dögunum kom eitt versta kalsártilvik vegna fitufrystingar á heimsvísu upp hér á landi á síðasta ári. Formaður félags lýtalækna hefur kallað eftir auknu eftirliti með fitufrystingu og segir Haraldur embættið nú bíða formlegs erindis vegna málsins.

Fitufrysting eða kælifitueyðing byggir á kælingu fitufruma og er gerð til að minnka fitulagið á líkamanum. Hér á landi þarf engin tilskilin leyfi frá landlæknisembættinu til að bjóða upp á slíka meðferð. Á Íslandi er fitu­fryst­ing fram­kvæmd á nokkr­um stof­um en aðeins ein þeirra býður upp á meðferðina und­ir læknis­eft­ir­liti. Kon­an sem fékk kals­ár­in fór í fitu­fryst­ing­una á stofu sem ekki er und­ir eft­ir­liti lækna.

Ekki borist formlegt erindi

Eins og Morgunblaðið greindi frá um helgina fékk konan þriðja stigs kalsár og fullþykktardrep í húð á tveimur blettum á líkamanum eftir fitufrystingu síðastliðið haust. Þurfti hún að gang­ast und­ir aðgerðir þar sem sár­in voru hreinsuð og gerð húðágræðsla. 

Síðar fór húðin að flagna af.
Síðar fór húðin að flagna af.

Halla Fróðadótt­ir, lýtalæknir og formaður félags lýtalækna, sagði að um væri að ræða eitt versta til­vik sem lýst hef­ur verið á heimsvísu af völd­um fitu­fryst­ing­ar. Sagði hún sár­lega vanta reglu­gerð um þessa meðferð, svo og aðrar meðferðir sem sum­ar hverj­ar eru gerðar í heima­hús­um og á snyrti­stof­um. 

„Það hefur komið fram í fjölmiðlum að félag lýtalækna bendi á þetta svo við bíðum bara eftir að heyra nánar frá þeim svo við getum skoðað málið betur,“ segir Haraldur, og bætir við að ekkert formlegt erindi hafi borist embættinu.

Fer fram á bætur

Fyrirtækið sem veitti meðferðina hefur sagt í yfirlýsingu, sem fjallað var um í fréttum RÚV í gær, að það telji að reka megi hluta skaðans sem konan varð fyrir til rangrar eftirmeðferðar. Er því þar haldið fram að hún hafi borið kælipoka, sem náð geti allt að mínus 20 gráðum, að óvarinni húð í kjölfar bólgu sem myndaðist. Samkvæmt heimildum mbl.is er því haldið fram af hálfu konunnar að enginn kælipoki hafi verið notaður.

Fyrirtækið sagði í yfirlýsingunni að konan hafi lagt fram rúmlega tveggja milljóna króna bótakröfu vegna áverkanna. Ekki hefur verið höfðað mál af hálfu konunnar eða félagsins.

Fullþyktardrep kom á svæðið og þurfti að græða húð á …
Fullþyktardrep kom á svæðið og þurfti að græða húð á sárin.

Fólk fari í meðferðir á eigin ábyrgð

Haraldur segir landlæknisembættið hafa eftirlitsskyldu gagnvart heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðisstarfsfólki, en embættið hafi ekki yfirsýn yfir aðra þjónustu sem ekki falli þar undir. Sem dæmi megi nefna bótoxaðgerðir, tattúveringar og líkamsgötun. „Fólk er að gera þetta á eigin ábyrgð og ef eitthvað kemur upp verður fólk að sækja mál sitt eftir hefðbundnum aðferðum,“ segir hann.

Það sem embættið geti hins vegar gert sé að vara fólk við áhættum og aukaverkunum. „Við höfum engar upplýsingar um það hvað fólk er að gera, en ef við fáum fólk inn með svona skaða getum við bent því á að vara sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert