Erfiðasti og hættulegasti dagurinn í dag

Veðrið í dag er eins og best verður á kosið …
Veðrið í dag er eins og best verður á kosið og sést í toppinn frá grunnbúðunum. Ljósmynd/Kári Schram

John Snorri Sigurjónsson og samferðamenn hans fóru af stað í morgun, um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma, frá búðum þrjú og halda nú áleiðis að búðum fjögur, síðasta viðkomustað áður en haldið verður á toppinn á K2. Búðir fjögur eru í um 8.000 metra hæð og er leiðin í dag ein sú hættulegasta í ferðinni. Veðrið er þó eins og best verður á kosið og ef allt gengur að óskum mun John Snorri leggja af stað á toppinn á miðnætti að íslenskum tíma.

„Veðrið er frábært sem er bara alveg ótrúlega gleðilegt. Það sést í toppinn frá grunnbúðunum, það er algjörlega stórkostlegt,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Lífs styrktarfélags, í samtali við mbl.is

Toppurinn snemma í fyrramálið ef allt gengur

Stefnan er að eftir nokkra klukkutíma verði hópurinn kominn í búðir fjögur þar sem hann mun hvíla sig áður en haldið verður af stað á toppinn sjálfan. Ef allt gengur eftir verður hópurinn kominn á toppinn snemma í fyrramálið að íslenskum tíma.

Veður er með besta móti í dag þó nú gangi …
Veður er með besta móti í dag þó nú gangi hópurinn yfir erfiðasta kaflann. Ljósmynd/Kári Schram

„Það eru náttúrlega alls konar hlutir búnir að gerast og þeir hafa þurft að bíða út af veðri og verið að tjalda í búðum þrjú og ætlað að fara inn í tjaldið og þá var allt fullt af snjó,“ segir Hjördís spurð hvernig ferðin hafi gengið til þessa.

Hópurinn sem John Snorri er í samanstendur af sex göngugörpum, John Snorra ásamt einum Kínverja og fjórum Sherpum.  Sherpinn Mingma sem John Snorri er að vinna með þykir afar öflugur og vinna þeir félagar vel saman. 

„En það er allt búið að ganga upp hjá þeim. Þeir eru náttúrulega eini hópurinn á fjallinu núna, margir búnir að snúa við þannig að ef þeir fara þarna upp þá er það bara stórkostlegt.“

Á hættulegasta staðnum sem stendur

Einhverjir hafa þó tínst úr hópnum, til að mynda vegna háfjallaveiki og annars sem getur hrjáð menn í svo mikilli hæð. John Snorri er þó hvergi hættur en að sögn Hjördísar er dagurinn í dag einn sá erfiðasti.

„Það er GPS-punktur sem hægt er að fylgjast með inn á lifsspor.is og okkur sýnist hann vera að fara yfir alveg brjálæðislega hættulegt svæði akkúrat núna sem er snjóhengja, að fara undir snjóhengju. Dagurinn í dag er erfiðasti dagurinn og hættulegasti dagurinn og þetta svæði er svæði sem mjög margir flaska á sem að reyna við toppinn,“ útskýrir Hjördís.

Þegar á toppinn verður komið mun hópurinn staldra þar við í skamma stund áður en haldið verður af stað til baka. Leiðin niður er ekki síður varasöm, ekki síst vegna þess að gjarnan er hugurinn þegar farinn að reika heim og því mikilvægt að halda huganum við efnið enda erfiður leiðangur sem getur verið hættulegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert