Þarf að útiloka tilfinningar og halda áfram

„Fjarveran frá fjölskyldunni er erfið, ég er búinn að vera …
„Fjarveran frá fjölskyldunni er erfið, ég er búinn að vera fjóra mánuði í burtu. Maður verður að vera sjálfselskur til þess að standa í þessu.“ Ljósmynd/Lífsspor á K2

Svartaþoka, drunur frá snjóflóðum, snjóhengjur og sprungur í fjallinu hafa sett mark sitt á för John Snorra Sigurjónssonar á tind fjallsins K2. Hann er örþreyttur, búinn að missa 12 kíló og reynir nú að hvílast fyrir næstu átök.

Stefna á toppinn föstudagsmorgun

„Mér líður ágætlega, nema ég er bara alveg úrvinda af þreytu, og allir hér í búðunum,“ segir John Snorri. Dagurinn var erfiður og snjórinn er svo djúpur að hann nær alveg upp að hné og jafnvel upp í mitti á sumum stöðum. „Við ætluðum að halda áfram klukkan tíu í kvöld eftir þriggja tíma hvíld en við getum það bara ekki,“ segir John Snorri.

Ferðin úr þriðju búðum tók um 12 klukkustundir en hefði í raun átt að taka um sex stundir, að sögn John Snorra. „Við ætlum að freista þess að reyna að toppa 28. júlí, leggja af stað annað kvöld og toppa svo eldsnemma morguns eða um klukkan 6 á staðartíma [11 að íslenskum tíma],“ segir John Snorri.

John Snorri dvelur nú í fjórðu og síðustu búðum á …
John Snorri dvelur nú í fjórðu og síðustu búðum á fjallinu hættulega. Ljósmynd/Lífsspor á K2

Einn hefur toppað áður

Það fer gríðarleg orka í það að ryðja snjó frá slóðinni og segir John Snorri sheprana hafa unnið ótrúlega vinnu og þeir hafi verið eins og tannhjól að ryðja slóðann. Með í för eru 9 sherpar og segir John Snorri það skipta gríðarlega miklu máli. Einn þeirra, maður að nafni Mingma, komst á topp fjallsins árið 2014. „Við njótum sannarlega góðs af honum,“ segir John Snorri.

Vanalega fara hópar nokkrar ferðir upp og niður með búnað, en vegna veðurs hefur hópurinn ekki náð því og þurfa þeir því að bera mikið á bakinu. Það munar því gríðarlega um að hafa fleiri hendur. Hópurinn fær nú 20 tíma hvíld fyrir næstu átök. „Spurning hvað er hægt að kalla þetta hvíld, maður er náttúrulega í 7.800 metra hæð þannig að maður er ansi hátt upp,“ segir John Snorri og hlær.

Búinn að missa 12 kíló

Tveir úr hópnum hafa hætt við, annar gafst upp og hinn fékk háfjallaveiki. „Við erum í raun einir á fjallinu. Það eru allir hættir við,“ segir John Snorri. Aðspurður hvernig sé að halda einbeitingu í þessum aðstæðum segir John Snorri: „Það er mjög erfitt og búið að taka mikið á skrokkinn. Ég er örugglega búinn að missa 12 kíló.“

„Svo náttúrulega fjarveran frá fjölskyldunni, ég er búinn að vera 4 mánuði í burtu. Maður verður að vera sjálfselskur til þess að standa í þessu. En fjölskyldan mín er eins og klettur á bak við mig og dóttir mín tjáði mér að hún væri svo ánægð að ég væri að eltast við drauminn minn,“ segir Johnn Snorri og auðvelt er að greina söknuð í rödd hans.

Ætlaði á toppinn 2020 

John Snorra hefur lengi dreymt um að klífa K2, hann …
John Snorra hefur lengi dreymt um að klífa K2, hann er nú nálægt því að upplifa þann draum. Ljósmynd/Lífsspor á K2

John Snorri segir sig hafa dreymt lengi um það að sigra fjallið. „Svona um fermingu þá kemur fjallið til mín. Ég varð var við það, sé það í blöðum og heyri um það. Alltaf tikkaði það inn og vakti áhuga minn,“ segir John Snorri. „Ég ætlaði reyndar að fara 2020 en svo dó pabbi um jólin þannig að ég ákvað bara að drífa mig af stað,“ segir hann ákveðinn.

„Þetta fjall er rosalega erfitt viðureignar, sérstaklega veðurfarslega séð. Á leiðinni frá þriðju búðum sáum við ekki neitt, það var mikil þoka og við heyrum snjóflóð í kringum okkur,“ segir John Snorri en hópurinn lenti í vandræðum með að komast upp á öxl við fjórðu búðir þar sem ekki var óhætt að ganga yfir fyrr en birti til.

Auðvelt að snúa við

„Það er svo mikið um snjóhengjur og sprungur í kringum okkur að maður getur ekkert labbað óhultur án þess að sjá. En það rofaði til og við rötuðum á réttan stað,“ segir John Snorri. Svartaþoka, drunur frá snjóflóðum, snjóhengjur og sprungur í fjallinu. Vottar ekki fyrir hræðslu hjá okkar manni í þessum aðstæðum? „Jú, maður verður hræddur. Þetta er svo risavaxið. Maður er svo lítill í náttúrunni. Maður er svo lítill hérna á fjallinu, bara eins og snjókorn,“ segir John Snorri einlægur.

„Þetta eru alveg rosalega átök, þetta reynir alveg svakalega á mann og gengur nærri manni. Það er svo auðvelt að snúa við og hætta,“ segir John Snorri. Hefur það aldrei hvarflað að þér að hætta? „Þegar þú gengur svona nærri þér, kreistir út alla orku sem þú getur, þá er það óneitanlega hugsun sem kemur mjög oft upp í hugann, segir John Snorri. „Þá er það hugurinn sem þarf að vera sterkari og yfirvinna tilfinningarnar. Ég nota aðferðina að útiloka tilfinningar og held áfram upp,“ segir hann einbeittur. 

Ekki búið fyrr niður er komið

Leiðin niður er ekki síður hættuleg og John Snorri segir flest slys á fjallinu verða þar. „Maður þarf að vera með 100% einbeitingu á leiðinni upp og 110% á leiðinni niður,“ segir John Snorri. Á niðurleið snýrðu baki í skriðurnar, snjóflóðin og grjóthrunið og því erfiðara að varast.

„Á leið úr grunnbúðum í fyrstu búðir lentum við í sex snjóflóðum sem við þurftum að hlaupa undan, á leiðinni niður sérðu ekki snjóflóðin sem koma fyrir aftan þig,“ segir John Snorri. Það er því margt sem þarf að hugsa um og ber að varast. „Þetta er ekki búið fyrr en maður er kominn niður,“ segir John Snorri að lokum.

John Snorri í góðum gír í grunnbúðum á K2.
John Snorri í góðum gír í grunnbúðum á K2. Ljósmynd/Lífsspor á K2
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert