Greiða milljarð innan tíu daga

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er rúmlega 200 blaðsíðna dómur. Við verðum að fá tíma til að lesa hann yfir og fara yfir hann. Áður verður ekkert hægt að segja,“ segir Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, kísilversins í Helguvík, um niðurstöðu gerðardóms í máli kísilversins og ÍAV verktaka.

Í úrskurði gerðardóms frá því á mánudag er United Silicon gert að greiða íAV verktökum milljarð vegna vangoldinna greiðslna í tengslum við uppbyggingu kísilversins. Eftir nokkrar vikur af deilum um greiðslur enduðu ÍAV á að stöðva framkvæmdir í Helguvík og pakka saman. Þá voru framkvæmdir mjög langt komnar og var verkinu lokið með því að fá aðra verktaka til verksins. Fréttablaðið greindi fyrst frá niðurstöðu dómsins.

Í úrskurðinum segir að United Silicon hafi tíu daga til að ganga frá greiðslum til ÍAV. Niðurstaða gerðardóms er bindandi fyrir aðila og ekki má fara með slíkt mál fyrir dómstóla. Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, vildi ekki tjá sig um niðurstöðu dómsins í samtali við mbl.is í dag.

Þegar deilur aðila stóðu sem hæst í fyrrasumar sagði hann í samtali við mbl.is: „Við leggj­um niður störf. Það er ljóst að við get­um ekki haldið áfram störf­um ef við fáum ekki borgað.“ Þá sagðist Sigurður aldrei hafa kynnst öðru eins: „Við höf­um verið í verk­taka­brans­an­um í ára­tugi og höf­um aldrei kynnst svona fram­komu. Aldrei.“

Tíminn vel nýttur á meðan starfsemin liggur niðri

Enn er unnið að viðgerðum í kísilverinu eftir að kís­il­málm­ur rann niður á gólf fyrir níu dögum með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á rafmagnslögnum. Starfsemin hefur legið niðri síðan. „Það er unnið að endurbótum og viðgerðum eftir að málmurinn fór á gólfið,“ segir Kristleifur. „Það er búið að taka lengri tíma en ætlað var, bæði vegna endurhönnunar ýmiss búnaðar og sumarleyfistíminn stendur sem hæst.“

Vonir standa til að starfsemin hefjist aftur á föstudag eða laugardag. Um 80 manns starfa hjá fyrirtækinu og er tíminn nýttur til alls kyns verkefna innan verksmiðjunnar og í þjálfun starfsmanna að sögn Kristleifs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert