Hver á rétt á verðmætunum?

Kaupskipið Porta, systurskip Minden.
Kaupskipið Porta, systurskip Minden. Wikipedia

Margir hafa spurt sig hvar eignarréttur á verðmætum í efnahagslögsögu landsins liggi, eftir að norska rannsóknarskipið Seabed Constructor hóf rannsóknir við þýska flakið Minden fyrr á árinu. Var um ólöglegar rannsóknir að ræða og bíður breskt fyrirtæki þess nú að fá leyfi til rannsóknanna frá íslenska ríkinu. En hver á rétt á verðmætum í skipinu, sem gætu verið upp á milljarða króna?

Mbl.is hafði samband við sérfræðinga til að komast til botns í málinu.

Segja milljarða liggja í skipinu

Eins og fjallað hef­ur verið um var norska rann­sókn­ar­skip­inu Sea­bed Constructor stefnt til hafn­ar hér á landi af Land­helg­is­gæsl­unni í apríl vegna gruns um ólög­leg­ar rann­sókn­ir á þýska kaup­skip­inu Mind­en, sem sökk suður af Íslandi árið 1939. Í kjöl­farið var sótt um starfs­leyf­is­um­sókn hjá Um­hverf­is­stofn­un, en ef hún verður samþykkt gæti rann­sókn­ar­skipið hafið neðan­sjáv­ar­fram­kvæmd­ir við Mind­en snemma í haust.

Fyr­ir­tækið sem sæk­ir um leyfið heit­ir Advanced Mar­ine Services Ltd. og er skráð í Bretlandi. Hóp­ur breskra fjár­sjóðsleit­ar­manna segist hafa fundið kistu í flak­inu sem gæti inni­haldið nas­istagull að and­virði hundrað millj­ón­ir punda eða hátt í fjór­tán millj­arða króna. Er fyrirtækið það fyrsta til að sækja um leyfi til rannsókna í skipinu, en hver sem er hefði getað sótt um slíkt leyfi. 

Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi …
Rannsóknarskipið Seabed Constructor á meðan lögreglurannsókn fór fram á starfsemi þess. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Björgun muna eða fjársjóðsleit?

Þegar kemur að hafrétti, er málið ekki svo einfalt að hægt sé að segja að sá eigi fund sem finnur. Eignarétturinn snýr að því hvar verðmætin fundust og hverjum þau tilheyrðu upprunalega. Mbl.is hafði samband við Bjarna Má Magnússon, doktor í hafrétti við Háskólann í Reykjavík, sem benti á grein bandaríska miðilsins CBS frá árinu 2009, þar sem reynt er að svara spurningum um eignarétt verðmæta á hafsbotni.

Í greininni er fjallað um muninn á björgun verðmæta annars vegar og fjársjóðsleit hins vegar. Þar segir að björgun verðmæta felist í því að bjarga munum sem eru týndir eða hafa verið skildir eftir á sjó. Samkvæmt alþjóðalögum sé bjargvættinum skylt að skila mununum til upprunalegs eiganda og fá endurgjald fyrir. Fjársjóðsleit snúi hins vegar að því að leita að munum eða verðmætum úr skipum sem sokkið hafa á hafi úti til eigin fjárhagslegs hagnaðs.

Fundu gull á hafsbotni

„Fjársjóðsleit er ekki endilega björgun, því björgun er rétturinn til að fá endurgjald frá eiganda þegar eigandi er þekktur og þú ert í þeirri stöðu að geta skilað verðmætunum til hans,“ er haft eftir lögfræðingnum William Moreira, sem sérhæfir sig í hafrétti. „Venjulega í fjársjóðsleitarmálum er það ekki þannig, því verðmætin hafa verið týnd í svo langan tíma að enginn eigandi kemur fram.“

Oft finnast slík verðmæti af fyrirtækjum sem hafa það markmiði að fara um höf og leita að verðmætum í sokknum skipum. Bandaríska leitarfyrirtækið Odyssey Marine Exploration hefur stundað slíkar leitir og fundið gull á hafsbotni.

Í febrúar 2009 fundu sérfræðingar fyrirtækisins flak breska herskipsins HMS Victory sem sökk á Ermarsundi árið 1744. Telja sérfræðingar að ýmsir gripir úr flakinu, svo sem fallbyssur, kunni að vera milljóna punda virði. Þá er talið að fjögur tonn af gulli séu um borð í skipinu.

Á vef Odyssey Marine Exploration kemur fram að samkomulag hafi náðst um rannsóknir við skipið og leitarfyrirtækið muni fara fyrir þeim rannsóknum en beðið sé leyfis frá breska varnarmálaráðuneytinu til að sækja verðmæti um borð í skipið.

Tveimur árum áður fann fyrirtækið 17 tonn af gull- og silfurpeningum í skipsflaki á botni Atlantshafs. Verðmæti fjársjóðsins eru talin vera um hálfur milljarður dala, jafnvirði nærri 32 milljarða króna. Skipið hafði sokkið undan ströndum Portúgal 203 árum áður, og krafðist spænska ríkið þess að fá fjársjóðinn afhentan. Deilur stóðu yfir um eignarhaldið á fjársjóðnum í fimm ár en loks höfðu Spánverjar sigur og var fjársjóðurinn fluttur til Spánar.

Nokkr­ir af hundruðum þúsunda gull­pen­inga sem fund­ust um borð í …
Nokkr­ir af hundruðum þúsunda gull­pen­inga sem fund­ust um borð í skip­inu á botni Atlantshafs. Reuters

Íslensk fyritæki hefðu getað sótt um

Í íslenskum siglingalögum má finna grein um björgun verðmæta, en í 167. gr. laganna segir að björgunarmaður eigi rétt til björgunarlauna beri björgunaraðgerðir árangur. Að frátöldum vaxta- og málskostnaði megi ekki ákvarða björgunarlaun hærri en sem nemur verðmæti þess sem bjargað var. Þá segir í 169. gr. að eigandi skips og eigendur annars lausafjár sem bjargað var séu ábyrgir fyrir greiðslu björgunarlauna í hlutfalli við verðmæti hinna björguðu eigna þeirra.

Fjallað er um eignarétt á hafsbotni í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en þar er hugtakið ekki skilgreint nákvæmlega. Hvað varðar rann­sókn­ir í efna­hagslög­sögu, fyr­ir utan land­helg­ina, þá er al­mennt talið að haf­rann­sókn­ir þurfi að snúa að um­hverfi hafs­ins. Í tilviki Seabed Constructor snúast aðgerðirnar hins vegar um að ná verðmætum úr skipinu.

Ef eigandi skipsins gerir tiltall til verðmætanna ætti breska fyrirtækið því rétt á björgunarlaunum ef það nær verðmætunum af hafsbotni. Þýska ríkið gæti því verið réttmætur eigandi verðmætanna. Ef enginn gerir tilkall fer það hins vegar eftir því hvort verðmætin finnast innan eða utan landhelgi Íslands, hver teljist eigandi. Þar sem Minden er fyrir utan landhelgina á sá fund sem finnur.

Advanced Mar­ine Services Ltd. er fyrsta fyrirtækið til að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar til rannsókna á skipinu, en hver sem er hefði getað gert það. Íslensk fyrirtæki hefðu því getað rannsakað og fundið umræddan fjársjóð í skipinu.

Almenningur geti tjáð sig um málið

Að sögn Agnars Braga Bragasonar, lögmanns Umhverfisstofnunar, verður farið á fullt í vinnu við umsóknina eftir að sumarfrí klárast í byrjun ágúst. Um­hverf­is­stofn­un sendi umsóknina ný­lega til ým­issa stofn­anna, eins og ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og Minja­stofn­unn­ar, til að veita henni um­sögn. Að því loknu mun um­sókn­in fara í hefðbundið ferli, þar sem al­menn­ing­ur getur meðal ann­ars tjáð sig um málið.

„Okkar leyfi snýst ekki um verðmæti heldur mengunarvarnir, en við höfum samt áhuga á að vita hvað á að ná í,“ segir Agnar. Bendir hann á að það séu upplýsingar sem stofnunin óskar eftir áður en hún veitir leyfið. 

Varðandi ástæður þess að ekki hafi verið sótt um leyfi til stofnunarinnar áður til rannsókna á skipinu segir Agnar: „Þetta er nú eitthvað sem er kannski ekki á almannavitorði“.

Loks segist hann vonast til þess að umsagnirnar geti varpað ljósi á það hvernig næstu skref verða varðandi leyfisveitinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert