Mengun í Mosfellsbæ sé næstum daglegt brauð

Meng­unin gerir vart við sig annað slagið í Varmá á …
Meng­unin gerir vart við sig annað slagið í Varmá á Mos­fells­bæ. Þá hefur áin stundum verið hvít vegna málningar og mórauð vegna aurs. Ljósmynd/Úr myndasafni

Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ, segir mengunina í Mosfellsbæ vera gamlar fréttir fyrir hverfisbúa. Mengunarmál séu næstum daglegt brauð og aðgerðarleysi bæjarins vera söguna endalausu. Nefnd hafi verið starfandi síðan 2014, en ekki sé víst hvort hún hafi nokkurn tímann fundað. Nú þurfi að grípa í taumana, taka fastar á málunum, koma upp hreinsunarbúnaði og bjarga ánni.

Meng­unin gerir vart við sig annað slagið í Varmá á Mos­fells­bæ. Þá hefur áin stundum verið hvít vegna málningar. Nýlega fóru fiskar að drepast í ánni, lík­lega út af skyndi­legr­i meng­un vegna efna­notk­un­ar á vatna­sviði ár­inn­ar. Gerla­meng­un mæld­ist svo í Varmá þar sem kom fram að magn saurkólíg­erla væri yfir meðallagi. Íbúar hafa kvartað ít­rekað yfir meng­un­inni til bæj­ar­yf­ir­valda.

Nýlega fóru fiskar að drepast í ánni, lík­lega útaf skyndi­legr­i …
Nýlega fóru fiskar að drepast í ánni, lík­lega útaf skyndi­legr­i meng­un vegna efna­notk­un­ar á vatna­sviði ár­inn­ar. Gerla­meng­un mæld­ist, þar sem kom fram að magn saurkólíg­erla væri yfir meðallagi. mbl.is/Golli

Mengun næstum daglegt brauð

„Þetta eru gamlar fréttir fyrir okkur og það hefur verið mikill barningur út af þessu,“ segir Sigrún. Mengunarmál hafi verið tekið margoft fyrir, og sérstaklega á síðasta kjörtímabili. Mengun sé nærri því daglegt brauð, það séu tíð tilvik þar sem eitthvað fari í ána og það hafi sömuleiðis verið alvarleg tilvik.

„Eins og þegar var verið að byggja Helgafellshverfið, þá var Varmáin dögum saman eins og jökulfljót á litinn og það eru til mjög slæmar myndir af því,“ segir hún. Síðan hafi bygging á hverfinu Reykjahvoli hafist fyrir nokkrum árum. „Þar rak hvert tilvikið annað og þeir sem voru að byggja þarna hleyptu allri drullunni í ána og hún var mórauð dögum saman. Þegar svona gerist þá deyr lífríkið í ánni, mold sest yfir hrygningarsvæðin og fiskurinn kafnar,“ segir Sigrún.

Aðgerðarleysi; sagan endalausa

Í þessum tilvikum hafi allt of seint verið gripið í taumana. Þrátt fyrir að vera í miklu sambandi við umhverfissvið hafi lítið verið gert. „Þetta er sagan endalausa,“ segir hún. „Þau eru ekki að taka þetta nógu alvarlega, það er ekki verið að vakta ána, það er ekki verið að mæla mengun eða fylgjast með því hvaða efni fari í ána.“

Áin rennur í gegnum íbúðarhverfi og að sögn Sigrúnar leika börn sér gjarnan í henni. „Mér finnst mjög alvarlegt að Mosfellsbær skuli ekki láta íbúana almennilega vita af því að áin getur verið hættuleg,“ segir hún.

Sigrún segir að áin hafi oftsinnis verið mórauð þegar verið …
Sigrún segir að áin hafi oftsinnis verið mórauð þegar verið var að undirbúa Helgafellsland undir byggingarframkvæmdir. Ljósmynd/Hildur Margrétardóttir

Bæklingur í nokkur hús ekki nóg

Bæjaryfirvöld hafi þó gefið út, af tillögu Íbúahreyfingarinnar, bækling til að vara við menguninni. Hann hafi aftur á móti aðeins verið borinn út í nokkur hús. „Það var fulltrúi íbúahreyfingarinar í umhverfisnefnd sem kvartaði yfir því á nefndarfundi, að bæklingurinn hefði bara farið í einhver hús, þá var henni sagt að þetta væri svo dýrt. Það væri svo mikill kostnaður,“ segir Sigrún.

Það þýði hvort eð er ekkert að gefa út einn bækling. Það þurfi að setja upp viðvaranir og vekja athygli á að í dag megi börnin ekki leika sér í ánni.

Nefnd til að gera hreinsibúnað

Sigrún var fulltrúi í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabil og segir að af eigin reynslu hafi þetta verið viðvarandi vandamál sem hafi ekki verið sinnt af nægri alúð. Tillögur um hreinsibúnað , sem myndi hreinsa ofanvatn og vatn úr niðurföllum sem færi í ána, hafi verið lagðar fram og samþykktar árið 2014. Þá hafi verið samþykkt að hefja undirbúning að því að gera slíkan hreinsibúnað. „Það var að störfum nefnd, sem að átti að leggja fram tillögur en síðan þá hefur ekkert heyrst,“ segir Sigrún.

Að hennar sögn er ekki víst hvort nefndin hafi nokkurn tímann fundað. „Það fer mörgum sögum af því hvort þessi nefnd hafi verið starfandi eða ekki,“ segir hún og bætir við: „fólk er ekki sammála um hvort hún hafi fundað og hvort það standi yfir höfuð til að gera einhverjar ráðstafanir“. Samkvæmt upplýsingum sem hún hafi hafi nefndin ekki fundað um málið síðan árið 2014. „Það eru upp­lýs­ing­arn­ar sem ég hef, en því er bæjarstjóri ekki sam­mála og í dag ætla ég að óska eft­ir funda­gerðum hjá framkvæmdastjóra umhverfissviðs,“ seg­ir Sigrún.

Að sögn Haralds Sverrissonar, bæjarstóra í Mosfellsbæ, var vissulega stofnaður starfshópur til að fara í gegnum fráveitumál í Mosfellsbæ. Það hafi þó aldrei verið nein nefnd, heldur aðeins innanhússtarfshópur. Þessi hópur hafi unnið að alls konar verkefnum, farið í gegnum lagnirnar, hannað settjörn og fundið og lagað rangtengingar. Hópurinn starfi enn og fundi en þar sem þetta sé ekki formleg nefnd séu ekki lagðar fram neinar formlegar fundargerðir til staðfestingar.

Sigrún segja atvikið með fiskanna vera gamlar fréttir. Mengun í …
Sigrún segja atvikið með fiskanna vera gamlar fréttir. Mengun í ánni hafi lengi verið vandamál. Ljósmynd/Hildur Margrétardóttir

Það sé hægt að bjarga ánni

Hún segir að það sé enn hægt að bjarga ánni og það sé mikilvægt verk. Varmá sé á náttúruminjaskrá og að hluta friðlýst. Fyrst þurfi að loka fyrir alla stúta í henni og halda áfram því starfi að loka rotþróm sem renni í vatnið. Það sé augljóst að enn séu rotþrær í ánni enda hafi mælst þar saurgerlamagn yfir mörkum.

Sigrún leggur einnig til að setja upp svokallað sandsíubeð, en þá fari vatnið í gegnum beðið og hreinsist, áður en það renni í ána. „Svona lagað er kostnaðarsamt, en ef maður hefur metnað í umhverfismálum og vill að íbúunum líði vel þá verður að eyða í þetta fé,“ segir Sigrún.

Að sögn Sigrúnar hafa á undanförnum áratugum verið ýmsar aðgerðir í gangi, eins og með rotþrærnar, en „bara ekki nóg“. Það þurfi að taka fastar á framkvæmdaaðilum sem hafa verið að hleypa aur í ána. „Það þarf að sýna það að maður virkilega vilji vernda ána og um leið íbúana sem hér búa,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert