Ölfusárbrú lokuð fram eftir morgni

Lokað verður fyrir umferð inn á Ölfusárbrú fram til klukkan 8 eða 9 í dag miðvikudaginn 26. júlí. Umferð er á meðan beint um Eyrarbakkaveg og Þrengslaveg. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna hafa framkvæmdir við malbikun á hringtorgi við Ölfusárbrú tafist en upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdunum yrði lokið um kl. 6 í morgun. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. 

Í dag er einnig stefnt að því að malbika aðra akreinina á Suðurlandsvegi frá hringtorgi við Toyota á Selfossi í áttina að Biskupstungnabraut. Akreininni verður lokað og verður umferð stýrt framhjá. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir frá kl. 7 til hádegis. 

Vegagerðin varar við töluverðum viðhaldsframkvæmdum á hringvegi frá Borgarnesi að Laugarbakka í Miðfirði næstu daga. Vegfarendur geta búist við umferðarstýringu við framkvæmdasvæðið með 10-15 mínútna bið í senn. 

Einnig er unnið við blettanir í Dölunum.

Vegfarendur eru beðnir að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert