Yfirlæknar æfir vegna starfsauglýsingar

Yfirlæknar rannsóknarsviðs Landspítala eru mjög ósáttir við vinnubrögð stjórnenda sjúkrahússins …
Yfirlæknar rannsóknarsviðs Landspítala eru mjög ósáttir við vinnubrögð stjórnenda sjúkrahússins þegar þeir auglýstu stöðu yfirlæknis lausa þrátt fyrir að staðan væri þegar mönnuð og ekki væri búið að ganga frá starfslokum viðkomandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil óánægja ríkir meðal yfirlækna á rannsóknarsviði Landspítala eftir að staða yfirlæknis erfða- og sameindalæknisfræðideildar var auglýst laus til umsóknar. Það sem gerir málið sérstakt er að núverandi yfirlæknir deildarinnar hefur ekki sagt upp eða verið sagt upp. Hann er æviráðinn og hefur verið yfirlæknir deildarinnar í að verða tvo áratugi.

Í bréfi sem yfirlæknar sviðsins sendu Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, er  vinnubrögðum spítalans harðlega mótmælt. Þeir benda á að læknirinn hafi staðið sig vel í starfi og hafi nýlega hlotið viðurkenningu frá sjúkrahúsinu fyrir vel unnin störf. Þá sé hann jafnframt prófessor fræðagreinarinnar innan læknadeildar Háskóla Íslands og eftirsóttur fyrirlesari um allan heim.

Ekki náðist í Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, við vinnslu fréttarinnar en Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra, segir spítalann ekki geta tjáð sig um málið á þessu stigi. Formaður Læknafélags Íslands gagnrýnir vinnubrögð stjórnenda Landspítalans og formaður prófessoraráðs Landspítala vonar að mistök hafi verið gerð með auglýsingunni í stöðuna.

Man ekki eftir sambærilegum vinnubrögðum

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir það vekja furðu að staðan sé auglýst laus þegar hún er mönnuð. „Það hefur ekki verið gengið frá samkomulagi um að hann stígi til hliðar eða hverfi til annarra starfa,“ segir Þorbjörn. Hann minnist þess ekki að nokkurn tímann hafi verið auglýst í stöðu yfirlæknis við Landspítala án þess að gengið hafi verið frá starfslokum viðkomandi áður.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Læknafélagið hefur komið að málinu fyrir hönd læknisins og segir Þorbjörn vinnubrögð stjórnenda spítalans einkennileg.  „Almennt séð í svona málum, ef starfsmenn leita til félagsins, þá reynum við að tryggja að ekki sé brotið á rétti þeirra. Þetta er mál sem við höfum verið að vinna í og við munum vinna meira í þessu máli fyrir okkar skjólstæðing,“ segir hann.

Þeir yfirlæknar sem mbl.is hefur rætt við segja allan rökstuðning skorta fyrir þessum aðgerðum stjórnenda sjúkrahússins. Nýr framkvæmdastjóri var ráðinn yfir rannsóknarsviðið á síðasta ári og hefur verið ófriður innan sviðsins síðan. Segja yfirlæknarnir að ákvörðunin um að auglýsa stöðuna lausa snúist miklu frekar um persónur en hag sjúklinga.

Vonar að mistök hafi verið gerð

„Það kemur spánskt fyrir sjónir að spítalinn velji sér þessa leið. Við viljum vona að þarna hafi átt sér stað alvarleg mistök,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala og yfirlæknir ónæmisfræðideildar.

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og formaður prófessoraráðs Landspítala.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og formaður prófessoraráðs Landspítala.

„Okkur finnst þetta ekki í anda góðrar mannauðsstjórnunar, og ég tala nú ekki um þegar um lykilfólk er að ræða,“ segir Björn. „Þetta skapar gríðarlegt óöryggi í starfi hjá honum fyrst og fremst, en einnig hjá öðrum sem eru farnir að hugsa hvort þeir eigi von á sambærilegum vinnubrögðum. Ég vona að þetta séu mistök, að þarna hafi orðið handvömm og menn sjái að sér, maður verður að trúa að það sé raunin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert