6.000 kílómetra leið á traktor

Heinz og Irmgard hafa ferðast saman í tæplega þrjár vikur …
Heinz og Irmgard hafa ferðast saman í tæplega þrjár vikur um Suðurlandið á traktornum. Ljósmynd/Reynir Sveinsson

Tíunda júní hófst Íslandsför Þjóðverjans Heinz Prien, en hann ólíkt öðrum ákvað að ferðast um landið á 54 ára gamalli dráttarvél af gerðinni Hanomag með húsvagn í eftirdragi.

Heinz hóf för sína í Muggenstrum í suðvesturhluta Þýskalands og hefur hug á að ljúka henni þar 30. september næstkomandi.

Heinz er 61 árs gamall og starfar sem verkefnastjóri í heimabæ sínum Stuttgart þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni Irmgard.

„Árið 2011 keypti ég mér traktor til þess að gera upp. Eftir rúmlega sex mánuði var hann líkt og nýr og þar með fæddist hugmyndin um að fara í langferð á traktornum,“ segir Heinz og bætir við að þau hjónin hafi heimsótt Ísland árið 2013, kunnað vel við sig og ákveðið í framhaldinu að ferðinni á traktornum væri heitið þangað.

„Á árunum 2014 og 2016 fórum við í nokkrar prufuferðir á traktornum, en ég hóf að plana þessa ferð af alvöru fyrir tveimur árum,“ segir Heinz en mikill undirbúningur fór í að koma traktornum í rétt ástand svo að hann myndi ekki bila á leiðinni.

Dráttarvélin sem Heinz ferðast á er af gerðinni Hanomag frá …
Dráttarvélin sem Heinz ferðast á er af gerðinni Hanomag frá árinu 1963.


Tveimur vikum eftir að Heinz hóf för sína slóst Imgard, eiginkona hans, með í för og saman fóru hjónin frá Hirtshals í Danmörku með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar. Ferðin til Hirtshals tók Heinz rúmar 77 klukkustundir í akstri en ferðin var um 1.385 km. Í heildina ætlar Heinz að ferðast um 6.000 km á dráttarvélinni.

„Við hjónin ferðuðumst saman í tæpan mánuð um Suðurlandið en Irmgard flaug heim í síðustu viku þar sem sumarfríið hennar var á enda og einhver þarf að vinna til þess að við höfum efni á þessari ferð,“ segir Heinz og hlær.

Er blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af honum var hann staddur á Akranesi og ætlaði að halda för sinni áfram hringinn um landið. Hann ætlar síðan að taka ferjuna frá Seyðisfirði 30. ágúst og dvelja í viku í Færeyjum áður en hann heldur heim á leið. Spurður hvort hann ætli ekki bara að skilja traktorinn eftir í Færeyjum segir Heinz það ekki koma til greina: „Við ætlum báðir að komast heilir heim.“

Heinz segir að er heim verði komið muni hann vinna í níu mánuði í viðbót áður en hann fer á eftirlaun. „Eftir það verður nógur tími fyrir fleiri ævintýri,“ segir hann og hlær.

Hanomag í miklu uppáhaldi

Dráttarvélin sem Heinz ferðast á er af gerðinni Hanomag frá árinu 1963 og er því 54 ára gömul.

Heinz segist alltaf hafa verið hrifinn af Hanomag-traktorum og því kom ekkert annað til greina fyrir ferðina. Traktorinn dregur húsvagn meðan á ferðalaginu stendur en Heinz segir það hafa verið mikilvægt að velja lágan húsvagn svo það sæist vel í traktorinn fyrir bíla sem kæmu aftan að honum.

Dráttarvélin tekur 5,7 lítra af olíu og nær 24 km hraða. „Á þessum hraða er mun auðveldara að njóta landslagsins á meðan maður er að keyra,“ segir Heinz og hlær. Hann áætlar að keyra um 50 kílómetra á dag á meðan hann er hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert