Pylsuvagninn Bæjarins bestu flytur yfir götuna

Pylsuvagninn mun flytja tímabundið yfir götuna.
Pylsuvagninn mun flytja tímabundið yfir götuna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hinn vinsæli pylsuvagn Bæjarins bestu verður í dag fluttur yfir götuna og komið fyrir til bráðabirgða á gangstéttinni fyrir framan Hótel 1919 í Eimskipafélagshúsinu.

Bæjarins bestu öðlaðist heimsfrægð þegar Bill Clinton Bandaríkjaforseti fékk sér þar pylsu um árið.

Sölulúgan mun snúa í átt að Tollhúsinu og því mun röðin, sem jafnan myndast fyrir framan vagninn, verða í Tryggvagötu.

Pylsuvaginn hefur verið á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis í 80 ár og því teljast þessi flutningar til tíðinda. Að sögn Guðrúnar Kristmundsdóttur, eiganda Bæjarins bestu, verður vagninn á þessum bráðabirgðastað í nokkra mánuði. „Við vonumst til að geta flutt aftur á okkar venjulega stað á Hafnarstrætisreit fyrir jólin,“ segir Guðrún.

Ástæða flutninganna er sú að til stendur að reisa nýja spennistöð á Hafnarstrætisreit. Þetta verkefni útheimtir mikið jarðrask. Búið er að grafa mikla holu á horni reitsins og vegna framkvæmdanna hefur þrengt mjög að pylsuvagninum. Stækka þarf þessa holu enn frekar og grafa fyrir leiðslum.

Núverandi spennistöð er innar á lóðinni og því er um tilflutning að ræða innan reitsins. Gamla spennistöðin er við gafl hins nýja hótels sem risið hefur á reitnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert