Íslendingar virðast frekar vilja dætur

AFP

Ekki er endilega ástæða til að hafa áhyggjur af lækkandi fæðingartíðni hérlendis, sem lesa má úr tölum allra síðustu ára. Konur gætu einfaldlega verið að seinka barneignum. Auk þess virðast Íslendingar fremur vilja eignast dætur en syni.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn um barneignir á Íslandi á árunum 1982-2013 frá Ara Klængi Jónssyni, doktorsnema í lýðfræði við Stokkhólmsháskóla, sem birtist í vísindaritinu Demographic Research.

Hegðun stöðug yfir tímabilið

„Meðalaldur móður er hún eignast fyrsta barn á Íslandi er ennþá mjög lágur, um það bil tveimur árum lægri en í Svíþjóð,“ segir Ari Klængur í samtali um þetta efni  í Morgunblaðinu í dag. „Það sést þó að konur eru jafnt og þétt að seinka því að verða mæður og eru líklegri til þess að eiga börn þegar þær eru komnar yfir þrítugt en þær voru áður.“

Fæðingartíðni hérlendis er hærri en víðast hvar í Evrópu. „90% kvenna verða mæður og 90% kvenna sem eiga eitt barn eignast annað barn. Þá eignast tvær af hverjum þremur tveggja barna mæðrum þriðja barn. Þetta var mjög stöðugt yfir þann tíma sem ég skoðaði,“ segir Ari.

Við rannsóknina notaðist Ari við aðrar aðferðir en Hagstofa Íslands gerir þegar hún birtir til dæmis upplýsingar um lifandi fædd börn á ævi hverrar konu. „Í rannsókninni er ég að skoða undirliggjandi hegðun vegna barneigna og við getum með einfölduðum hætti sagt að við séum að bera saman hegðun svipaðra hópa, með tilliti til aldurs og fyrri barneigna, en á mismunandi tíma. Ef fólk er að seinka barneignum, þá lækka þessar tölur Hagstofunnar, en það þýðir ekki að konurnar muni endilega fæða færri börn þegar upp er staðið,“ segir Ari Klængur.

„Ég veit til dæmis ekki hversu miklar áhyggjur við þurfum að hafa af því að fæðingartíðnin sé komin niður í 1,75 núna. Væntanlega er þetta bara spurning um tímasetningu, en ekki merki um að konur séu að fara að eignast færri börn á lífsleiðinni, þó það sé ómögulegt að fullyrða nokkuð um það á þessu stigi.“

Smávegis dætrahygli

Niðurstöður Ara benda til þess að Íslendingar vilji helst eignast börn af báðum kynjum og fremur eignast dætur en syni. Konur sem eiga tvo stráka eru 14% líklegri til þess að eignast þriðja barn en konur sem eiga bæði son og dóttur. Líkurnar á því að mæður tveggja drengja eignist þriðja barn eru 4% meiri en mæðra sem eiga tvær dætur fyrir. 

„Það ætti ekki að vera neinn munur þarna á, ef fólk myndi ekki líta til kyns barnanna þegar það tekur ákvörðun um að eignast þriðja barn. Maður les út úr þessu að það sé smávegis dætrahygli á Íslandi, eins og hefur verið til staðar á hinum löndunum á Norðurlöndum,“ segir Ari Klængur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert