Lögreglumennirnir áfram við störf

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi nú í kvöld frá sér yfirlýsingu vegna máls tveggja lögreglumanna sem kærðir hafa verið fyrir brot í starfi. Eru mennirnir sakaðir um harðræði við handtöku manns í Kópavogi í vor og greindi Fréttablaðið frá málinu í dag.

Í tilkynningu lögreglu segir að kærur á hendur lögreglumönnum vegna meintra brota í starfi séu ávallt teknar alvarlega og svo eigi einnig við hér.

Málið sé hins vegar til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara og því geti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki tjáð sig um rannsóknina.

Lögreglumennirnir sem um ræðir séu hins vegar áfram við störf, „en frekari ráðstafanir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gagnvart þeim verða teknar með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem hlýst af rannsókn embættis héraðssaksóknara í þessu máli,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert