Stærsta rannsókn í Surtsey frá upphafi

Hópur vísindafólks vinnur að verkefninu sem kallast SUSTAIN og miðar …
Hópur vísindafólks vinnur að verkefninu sem kallast SUSTAIN og miðar að því að bora tvær holur í eyjunni í þeim tilgangi að nýta gögnin sem fást til margvíslegra rannsókna. mbl.is/Árni Sæberg

Stærsta rannsókn í Surtsey frá upphafi hefst í ágúst. Hópur vísindafólks vinnur að verkefninu sem kallast SUSTAIN og miðar að því að bora tvær holur í eyjunni í þeim tilgangi að nýta gögnin sem fást til margvíslegra rannsókna.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og Marie Jackson, dósent við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum, stjórna verkefninu en alls munu um 50 manns koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti.

Surtsey árið 2012
Surtsey árið 2012 Mynd/Loftmyndir

Skoða myndun og þróun eldfjallaeyja

Magnús Tumi segir tilgang verkefnisins vera margþættan og samanstanda af mismunandi þáttum. Rannsóknin miðar að því að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja út frá eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði og örverufræði.

Borað var í Surtsey árið 1979 þegar eyjan var bara 15 ára gömul og með verkefninu nú verður hægt að bera saman niðurstöður og sjá hvaða breytingar hafa orðið. „Þetta er eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður,“ segir Magnús Tumi.

Magnús Tumi segir þau vonast til þess að fá ýtarlegar upplýsingar um hvernig úthafseyjur verða til og hvernig eldgos í sjó hegða sér.

Þá er mikilvægur þáttur í því að rannsaka hvernig móbergsmyndun, sem er gerð náttúrulegrar steypu, gengur fyrir sig og læra af náttúrunni hvernig hægt sé að búa til endingarmeiri steypu hér á landi. Auk þess verður skoðað hvernig lífverur og lífkerfi þróast í berginu svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknin er miðuð að því að varpa ljósi á myndun …
Rannsóknin er miðuð að því að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja út frá eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði og örverufræði. Ljósmynd/Úr safni

Aðgerðir á viðkvæmu en jarðfræðilega mikilvægu svæði

Önnur borholan verður um 200 metra djúp en hún fer alla leið í gegnum eyjuna og í botninn sem var þar fyrir. Hin borholan fer á ská í gegnum gíginn í þeim tilgangi að gefa upplýsingar um byggingu eyjunnar.

Verður gengið frá annarri þeirra svo að hún nýtist sem tilraunastofa. „Þar verður hægt að setja niður sýni, annaðhvort bergsýni eða sýni af lífverum, gera á þeim rannsóknir og skoða hvaða breytingar hafa orðið," segir Magnús Tumi og bætir við að þar með sé hægt að „búa til umhverfi sem mjög erfitt og dýrt er að búa til á tilraunastofu.“

Aðeins 12 manns vinna í eyjunni í einu en Magnús segir það vera heilmikla ábyrgð að vinna við rannsóknir þar. Fulltrúi frá umhverfisstofnun fylgist með undirbúningi og passar að allar framkvæmdirnar séu í samræmi leyfi sem fengust til þess að framkvæma rannsóknirnar. „Mikill hluti af því hvernig við högum þessu verki er til þess að gera allt sem við getum í að hindra það að við spillum eynni á nokkurn hátt, hvorki dýralífi, gróðri eða jarðmyndunum.“

Magnús Tumi segir þau vonast til þess að fá ýtarlegar …
Magnús Tumi segir þau vonast til þess að fá ýtarlegar upplýsingar um hvernig úthafseyjur verða til og hvernig eldgos í sjó hegða sér. Ljósmynd/Úr safni

Unnið með aðstoð og styrkjum ýmissa aðila

Fjöldi aðila kemur að verkefninu, en Landhelgisgæslan hjálpar með flutning á búnaði auk þess sem sérhæfðir bormenn koma frá Bandaríkjunum. Ýmsir jarðfræðingar og líffræðingar verða við vinnu á rannsóknum í Heimaey og mun þyrlufyrirtæki flytja búnað eyjanna á milli. Þá er hópur ungra doktorsnema og nýdoktora sem koma að verkefninu. 

Eins og geta má er kostnaður við verkefnið gríðarlegur en hann er meðal annars greiddur með styrkjum frá alþjóðlega borsjóðnum Continental Scientific Drilling Program, úr vísindasjóðum í Þýskalandi, Noregi og á Íslandi. Þá styðja Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur einnig verkefnið auk fleiri aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert