Malbiksblæðingar í Mývatnssveit

Margir ferðamenn leggja leið sína um Mývatnssveit. Blæðingar í malbiki …
Margir ferðamenn leggja leið sína um Mývatnssveit. Blæðingar í malbiki hafa orðið á vegum í kring síðustu ár. mbl.is/Golli

„Þetta er að gerast ár eftir ár þegar svona hlýtt er,“ segir Birkir Fanndal, íbúi í Mývatnssveit, um blæðingar í malbiki á svæðinu. Hann segir virðast sem efni sem notuð eru í vegina þoli ekki hita og komi upp í gegnum malbikið og geti fest við hjólbarða bifreiða.

Áður hefur verið greint frá blæðingu í malbiki í Norðurárdal en það virðist ekki vera einsdæmi. Birkir segir Vegagerðina vita af þessu vandamáli og telur hann að þar sé fólk ráðalaust varðandi hvernig skuli leysa þetta.

Blæðir þegar heitt er í veðri

„Það var sáldrað yfir grófum sandi sem átti að blandast við þetta svo þetta klessist ekki í hjólbarðana,“ segir Birkir en bætir við að þá taki við rykmökkur sem standi yfir þá sem ganga á veginum. „Fjöldi ferðamanna gengur þarna um og svo er íbúðahverfi í 50 metra fjarlægð,“ segir Birkir.

„Þetta er búið að vera svona undanfarin sumur þegar það fer í 20°C eða meira, það er eins og þetta malbik sem er notað í dag sé bara ekki gert fyrir það,“ segir Birkir. „Það segja sumir að þeir blandi einhverju í malbikið til þess að spara og það sé jafnvel repjuolía,“ segir Birkir og mbl.is hefur heimildir fyrir því að svo sé.

Gerist ár eftir ár

„Þegar þeir [Vegagerðin] láta svo eins og þetta sé eitthvað stórmerkilegt og viti ekkert hvað þetta er þá finnst mér það skrýtið, því þeir eru búnir að glíma við þetta í mörg ár,“ segir Birkir. „Hér í Mývatnssveit er þetta svona og hefur verið í nokkur ár og þeir virðast bara ekki ráða við þetta,“ segir Birkir að lokum.

Ásdís Illugadóttir rekur heimagistingu 50 metra frá veginum og segir blæðingu hafa átt sér stað á sunnudag og svo aftur á þriðjudag. Ásdís segir aðallega hvimleitt að þetta skuli gerast ár eftir ár og notuð séu sömu efni. „Mér finnst ástæða til þess að endurgera þetta slitlag hérna með betra efni, þetta þolir bara ekki þennan hita og sól,“ segir Ásdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert