Þyrlan leitar fólks við Vatnajökul

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, var kölluð út.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, var kölluð út. mbl.is/Sigurður Bogi

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, var kölluð út í morgun rétt fyrir klukkan sex í leit að þremur göngumönnum sem urðu viðskila við gönguhóp sinn í Lónsöræfum austan við Vatnajökul. Mikil þoka er á svæðinu sem gerir leit erfiða. Stór hluti gönguhópsins hefst við í skálanum Egilsseli en í skálanum er lélegt fjarskiptasamband. Hópur björgunarsveitarmanna er á leið í skálann til að fá frekari upplýsingar. 

Þyrlan er með GSM-miðunarbúnað um borð. Vonir standa til að unnt verði að finna staðsetningu fólksins með þeim búnaði. 

Um miðnætti í gær voru björgunarsveitir af Suður- og Austurlandi boðaðar út vegna göngufólksins og hafa sveitirnar verið að störfum í alla nótt. Í gær var þó nokkur vindur og þoka á svæðinu.

Um 50 björgunarsveitarmenn taka þátt í aðgerðunum bæði gangandi, á fjór- og sexhjólum og með leitarhunda. Hluti þeirra er á leið í skálann og hefur sú ganga gengið betur en vonir stóðu til, að sögn Baldurs Pálssonar, stjórnanda aðgerða á svæðinu. Hann tekur fram að svæðið sé erfitt yfirferðar þar sem hættur leynast víða í hrjóstrugu landslagi.  

Mun skárra veður er á svæðinu en í gær en þá var mikið vatnsveður og þoka. Samkvæmt veðurspá á að létta til með morgninum. 

„Við reynum fyrst og fremst að komast í skálann til fólksins og fá þar mikilvægar upplýsingar. Næstu skref verða tekin eftir það,“ segir Baldur. Hann segir fjarskiptabúnaðinn sem er í skálanum ekki virka sem skyldi og hefur það sett strik í reikninginn. Hann reiknar með að mun fleiri björgunarsveitarmenn verði kallaðir út til frekari leitar.

Gönguhópurinn er íslenskur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert