Upp á bráðamóttöku NÚNA!

Bjarni Haukur Þórsson og hin sænska Karin Thorsson giftu sig …
Bjarni Haukur Þórsson og hin sænska Karin Thorsson giftu sig á síðasta ári. Hann bað hennar á toppi Esjunnar, á kafi í mosa. Rax / Ragnar Axelsson

„Hvaða vitleysa er þetta, ég er bara 43 ára gamall. Get varla verið að fá kransæðastíflu,“ hugsaði leikhúsmaðurinn Bjarni Haukur Þórsson með sér haustið 2014. Þetta var skömmu eftir frumsýningu bíómyndarinnar Afans og Bjarni farinn að finna fyrir vaxandi mæði en ýtti því frá sér. Hann hefur verið með hátt kólesteról í blóðinu frá því fyrir tvítugt og reglulega farið í skoðun. Á þeim tíma sagði læknirinn við Bjarna: „Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær þú færð hjartaáfall!“

Þau Karin, sænsk eiginkona Bjarna, voru stödd í Reykjavík og henni stóð ekki á sama; rak hann til læknis. Að lokinni skoðun sagði læknirinn: „Heyrðu góði, þú ert að fara upp á bráðamóttöku NÚNA!“

Bjarni var sendur í hjartaþræðingu, þar sem í ljós kom að ein kransæðin var 95% stífluð. Hann fékk að fylgjast með aðgerðinni á skjá en hægt var að blása æðina sem forðaði honum frá hjáveituaðgerð sem er mun umfangsmeiri og menn margfalt lengur að ná sér á eftir. „Ég var mjög heppinn að þetta greindist svona snemma. Segja má að ég hafi bara verið korter frá hjartaáfalli.“

Bjarni og Karin ásamt sonum sínum þremur, Ólafi Gústafi, William …
Bjarni og Karin ásamt sonum sínum þremur, Ólafi Gústafi, William og Hauki. Ljósmynd/Baldur Bragason

Þar með lauk viðburðaríku skeiði í lífi Bjarna Hauks Þórssonar; á örfáum mánuðum hafði hann kynnst ást lífs síns, eignast barn, frumsýnt sína fyrstu kvikmynd og fengið kransæðastíflu. „Ég náði mér merkilega fljótt eftir þræðinguna en tveimur til þremur mánuðum seinna krassaði ég hins vegar. Það er víst mjög algengt hjá fólki sem verður fyrir svona áfalli. Sjokkið kemur síðar. Það lýsti sér í miklum þyngslum og vanlíðan og um tíma var ég mjög langt niðri. Þá var gott að vera vel giftur. Hún var betri en enginn í þessum þrautum,“ segir hann og kinkar kolli til eiginkonu sinnar.

Menn hafa endurmetið líf sitt af minna tilefni og Bjarni íhugaði alvarlega að snúa baki við ástríðu sinni, leiklistinni, skipta um kúrs og finna sér eitthvað annað og rólegra að gera, þar sem álagið væri minna. „Ég tók það rólega í hálft annað ár, skrifaði svolítið en dró úr öllu öðru, og að þeim tíma loknum ákvað ég að halda áfram í leiklistinni – en á breyttum forsendum.“

Stærsta breytingin var sú að hann fékk Karin til liðs við sig í fyrirtæki sitt, Thorsson Productions, sem sérhæfir sig í sviðsetningum leikverka og framleiðslu sjónvarpsefnis og kvikmynda. Karin er efnaverkfræðingur að mennt og vann lengi sem ráðgjafi fyrir hin ýmsu stórfyrirtæki í Svíþjóð. Þess utan hefur hún bakgrunn í leiklist og fimleikum. „Karin smellpassaði inn í þessa jöfnu og aðkoma hennar að fyrirtækinu þýðir að ég get einbeitt mér meira að listrænu hliðinni,“ segir Bjarni.

Nánar er rætt við Bjarna Hauk og Karin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert