„Hún er alveg hrikalega spennt“

Hanyie er 11 ára flóttastúlka sem dreymir um að halda …
Hanyie er 11 ára flóttastúlka sem dreymir um að halda afmælið sitt á Íslandi. Ljósmynd/Guðmundur Karl Karlsson

„Þetta er allt að smella. Það eru rosa margir búnir að koma saman núna og bjóða fram hitt og þetta,“ segir Guðmundur Karl Karlsson, einn skipuleggjenda afmælisveislu afganskrar flóttastúlku, sem haldin verður á Klambratúni á morgun.

Hundruð manna hafa lýst yfir áhuga sín­um á því að mæta í 12 ára af­mæli Hanyie Maleki, 11 ára stelpu frá Af­gan­ist­an sem dreym­ir um að halda af­mælið sitt hér á Íslandi. Hanyie á af­mæli í októ­ber en sök­um þess að til stend­ur að senda hana og föður hennar úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, var ákveðið að blása til afmælisveislu á Klambratúni á morgun.

„Hún er alveg hrikalega spennt,“ segir Guðmundur, spurður hvort Hanyei hlakki til veislunnar á morgun. „Ég er ekkert viss um að hún geri sér grein fyrir því nákvæmlega hversu stórt þetta er orðið.“

Guðmundur Karl segir hjálparhönd hafa borist úr öllum áttum, bæði hafi listamenn boðist til að troða upp í veislunni og ýmsir aðrir lagt til hitt og þetta til að gera veisluna að veruleika. Nú sé hér um bil allt til reiðu og hafist verður handa við að skreyta tímanlega á morgun en veislan sjálf hefst klukkan 16:00. Þar mun söngkonan Þórunn Antonía m.a. taka lagið og leiða afmælissönginn auk þess sem Húlladúllan mun kenna viðstöddum að leika listir sínar með húllahring en nánari upplýsingar um veisluna má finna á Facebook-viðburði.

Gangi framhjá barnasáttmálanum

Guðmund­ur er sjálf­boðaliði hjá Solar­is, hjálp­ar­sam­tökum fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólk á Íslandi, en sam­tök­in standa fyr­ir und­ir­skrifta­söfn­un þar sem þrýst er á Útlend­inga­stofn­un um að end­ur­skoða mál feðgin­anna. Að sögn Guðmundar gengur undirskriftasöfnunin vel en þegar hann síðast athugaði í morgun höfðu tæplega 4.000 manns skrifað undir áskorunina.

„Vonandi sjá þau [hjá Útlendingastofnun] að þetta fólk á bara fullt erindi hérna í samfélagið okkar og sjái sér fært að taka málið fyrir. Það er allt sem við erum að biðja um, við erum bara að biðja um að taka málið fyrir, þeir hafa aldrei opnað málið þeirra,“ segir Guðmundur. „Það er bara sorglegt að þeir ganga framhjá barnasáttmálanum með því að þeir hlusta ekki á börnin.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Þá hefur verið stofnaður söfn­un­ar­reikn­ing­ur í nafni Guðmund­ar þar sem hægt er að leggja inn aur í af­mæl­is­gjöf fyr­ir Hanyie. Ekki var mögu­legt að stofna reikn­ing í henn­ar eig­in nafni og held­ur Guðmund­ur því utan um reikn­ing­inn.

Að hans sögn hefur söfnunin gengið vel en hann hyggst greina frá því í veislunni á morgun hversu miklu hefur verið safnað að Hanyie viðstaddri. „Það eru rosalega margir búnir að gefa smátt sem er að gera eitt stórt,“ segir Guðmundur.

Þeir sem vilja gefa Hanyie af­mæl­is­gjöf geta lagt inn á reikn­ing: 0513-14-406615 á kenni­tölu 091082-5359.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert