Drunur og brestir frá jöklinum þegar skalf

Horft úr hlíðum Skalla niður í Jökulgil þar sem upptök …
Horft úr hlíðum Skalla niður í Jökulgil þar sem upptök skjálftans voru. Ljósmynd/Pétur Blöndal

Á fimmtudaginn reið yfir skjálftahrina við Torfajökul og mældist stærsti skjálftinn 2.8 stig. Pétur Blöndal framkvæmdastjóri var á þeim tíma í hjólaferð ásamt félögum sínum og staddur rétt fyrir ofan Jökulgil, þar sem upptök skjálftans voru. Hann segir að þeir hafi vel fundið fyrir skjálftanum og að brestirnir og drunurnar sem heyrðust frá jöklinum hafi magnað áhrifin mikið.

Torfajökull er virk eldstöð og er meðal annars Landmannalaugarsvæðið innan eldstöðvarinnar. Pétur segir að því hafi þeir haft varann á sér eftir að skjálftinn reið yfir. „Það þarf ekki að horfa mikið í kringum sig til að átta sig á því að þarna hafa verið eldgos í gegnum tíðina,“ segir hann.

Nokkrir úr hópnum, Vilhjálmur Alvar Halldórsson, Sigurður Hjalti Kristjánsson, Hjalti …
Nokkrir úr hópnum, Vilhjálmur Alvar Halldórsson, Sigurður Hjalti Kristjánsson, Hjalti Atlason og Pétur Blöndal í hlíðum Skalla Ljósmynd/Pétur Blöndal
Hópurinn á Brennisteinsöldu: Vilhjálmur Alvar Halldórsson, Kolbeinn Árnason, Sigurður Kiernan, …
Hópurinn á Brennisteinsöldu: Vilhjálmur Alvar Halldórsson, Kolbeinn Árnason, Sigurður Kiernan, Gísli Reynisson, Pétur Blöndal, Sigurður Hjalti Kristjánsson og Hjalti Atlason Ljósmynd/Pétur Blöndal

Hópurinn var á svokölluðum Skallahring og var kominn að Uppgönguhrygg þegar skjálftinn reið yfir. „Það heyrðust miklar drunur og skruðningar og jörðin skalf undir okkur,“ segir Pétur og bætir við að þeir hafi orðið smá ráðvilltir og velt fyrir sér hvaða eldfjall væri eiginlega farið að gjósa.

Með í för var meðal annars fjallahlauparinn Sigurður Kiernan og segir Pétur að ekki hafi lengi þurft að leita að sjálfboðalið til að senda upp fjallshlíðina á Skalla til að ná símasambandi og forvitnast um hvort nokkuð stórt væri byrjað eða hvort þeir gætu haldið för sinni áfram. Komst hann að því að ekki væri útlit fyrir að nein eldsumbrot væru að hefjast og því var áfram haldið niður Uppgönguhrygg og niður í Jökulgil.

Hjólað niður uppgönguhrygg í Jökulgil við Hattver
Hjólað niður uppgönguhrygg í Jökulgil við Hattver Ljósmynd/Pétur Blöndal

Það var svo ekki fyrr en um kvöldið þegar þeir voru komnir í náttstað og farnir að grilla sem Pétur segir að þeir hafi uppgötvað að upptök skjálftans hafi einmitt verið í Jökulgili. Hann segist áður hafa upplifað jarðskjálfa, en aldrei verið jafn nálægt upptökunum. Það sé allt önnur tilfinning.

Skjálftarnir riðu yfir á Torfajökulssvæðinu.
Skjálftarnir riðu yfir á Torfajökulssvæðinu. Mynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert