Haglél á Suðurlandi og óróleiki í nótt

Haglél gerði rétt við Hellu á Rangárvöllum. Veðurfræðingur segir að …
Haglél gerði rétt við Hellu á Rangárvöllum. Veðurfræðingur segir að óróleiki sé yfir landinu og búast megi við hellidembum og jafnvel hagléli í kvöld og nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Á sjötta tímanum í dag gekk yfir haglél á Suðurlandi, en lesandi sem hafði samband við mbl.is og var í nágrenni við Hellu greindi frá því að í framhaldi af tveggja tíma rigningu á svæðinu hafi haglélsdrífa skollið á.

Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að haglélið komi í raun ekki á óvart, enda séu ský að myndast núna yfir Suðurlandi sem séu mjög hátt uppi, eða í um 6-7 kílómetra hæð. Slík ský kallast uppstreymisský og í þessari hæð segir Árni að hitastigið sé um 25-26 gráðu frost. Regndropar sem þar myndist falli því niður sem hagl.

Árni segir að samkvæmt radar sjáist að skýin séu að færast í austurátt og því megi búast áfram við hagléli í innsveitum sunnanlands og á hálendinu. 

Almennt segir hann að óróleikinn yfir Íslandi muni aukast í kvöld og í nótt og samhliða því muni kólna. Segir hann að hitastigið í innsveitum og á hálendinu geti orðið um 4-7°C í nótt og því ætti fólk að klæða sig vel í svefnpokum í nótt enda sé svöl nótt framundan. Þótt ekki komi til hagléls segir hann að víða geti gert hellidembur, líkt og gerði í dag í Reykjavík.

Óróleikinn og mögulegt haglél er þó líklegast fjær ströndinni og segir hann til að mynda að ólíklegt sé að hellidembur geri í Vestmannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert