Þar sem allt snýst um hesta

Sigríður Pjetursdóttir á Sólvangi vill bjóða gestum og gangandi að …
Sigríður Pjetursdóttir á Sólvangi vill bjóða gestum og gangandi að komast nær íslenska hestinum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hundar þrír taka geltandi á móti bíl blaðamanns sem er dauðhræddur um að keyra yfir krílin. En þetta eru sveitahundar sem kunna fótum sínum forráð þannig að engin er hættan. Sigríður Pjetursdóttir gengur rösklega yfir bæjarhlaðið með sítt flaksandi ljóst hár og breitt bros og heilsar.

Hún býr á búgarðinum Sólvangi og býður í bæinn, eða réttara sagt í Litlu hestabúðina, og nær í kaffi og bakkelsi. Þar hefur gamalli geymslu verið breytt í kaffihús og allt gert af krafti á tveimur mánuðum af einum smiði og fjölskyldumeðlimum. Þegar komið er inn í Litlu hestabúðina er greinilegt að íslenski hesturinn er þar í uppáhaldi.

Hvert sem litið er má sjá eitthvað sem minnir á hesta; stigahandrið úr skeifum, minjagripi og handverk með hestamyndum og glugga sem leyfa gestum að skoða bæði inn í hesthús og reiðhöll á meðan kaffið er drukkið.

Litla Hestabúðin er kaffihús þar sem hægt er að horfa …
Litla Hestabúðin er kaffihús þar sem hægt er að horfa á hestana, drekka kaffi og borða heimabakaðar kökur og kaupa vörur tengdar íslenska hestinum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Mjög dýrt áhugamál

„Ég er alin upp í hestamennsku frá blautu barnsbeini. Alltaf verið að keppa og verið á einn eða annan hátt að vinna við hesta allt lífið,“ segir Sigga sem flutti á Sólvang ásamt foreldrum sínum árið 2001.

Sigga býr ásamt manni og tveimur dætrum í húsi á bænum og við hliðina búa foreldrar hennar en fjölskyldan hefur stundað hrossarækt í sautján ár. „Mest vorum við með 120 hross en erum að fækka þeim aftur og erum nú með um 70,“ segir Sigga. „Að mörgu leyti er þetta áhugamál, dýrt áhugamál,“ segir hún og hlær. „Við hugsuðum þetta til að selja góð hross og líka fyrir okkur að eiga góð reið- og keppnishross.“

Sigga segist una sér best í sveitinni og eftir að hafa komið víða við endaði hún á að flytja þangað. „Ég hef alltaf verið sveitastelpa, við áttum sumarbústað á Laugarvatni og vorum með svolítið land. Þar vorum við með hrossin á sumrin. En nú er ég allt árið í sveitinni,“ segir Sigga en hún er menntaður reiðkennari frá Hólum.

„Ég ætlaði alltaf að gera eitthvað annað. Þess vegna fór ég að læra ferðamálafræði í Háskóla Íslands og fór í leiðsögumanninn og svo var ég að klára MBA-nám í vor. Svo hef ég verið kennslustjóri í Fjölbrautaskóla Suðurlands á hestabraut síðustu sjö árin,“ segir Sigga.

Dætur Sigríðar, Berta Sóley og Elsa Kristín, eru alvanar hestum. …
Dætur Sigríðar, Berta Sóley og Elsa Kristín, eru alvanar hestum. Þær fara nánast daglega á bak. Ásdís Ásgeirsdóttir

Reiðkennslan er kjarninn

„Okkur langaði að byggja hér upp reiðskóla og bjóða upp á reiðkennslu en það er kjarninn í starfsemi okkar,“ segir hún en útskýrir að hugmyndin sé víðtækari.

„Reiðkennslan og hestarnir eru kjarninn. Kaffihúsið er afleiðingin. Við stílum inn á fólk sem hefur áhuga á hestum. Og af erlendum ferðamönnum eru konur 80% af þeim sem áhuga hafa,“ segir Sigga en fyrirtækið er hugsað til reiðkennslu fyrir fólk á öllum stigum en ekki fyrir fyrir staka reiðtúra. Hún segir að alltaf sé hægt að læra meira og segist sjálf fara á reiðnámskeið. „Maður fer aftur og aftur til að bæta sig.“

Á bænum eru tvö smáhýsi sem leigð eru út til ferðamanna sem vilja stunda reiðnám og von er á þremur húsum til viðbótar innan skamms.

Vandræðalega mörg dýr

„Ég stefni á að útvíkka reksturinn, ég er auðvitað lærður ferðamálafræðingur, en við ætlum að byrja svona. En ég mun gera eitthvað meira. Við erum á ofsalega skemmtilegum stað hérna, í jaðrinum á friðlandi í Flóa og stutt í alls kyns afþreyingu,“ segir Sigga.

„Hugmyndin er að gera staðinn að aðdráttarafli fyrir alla þá sem vilja kynnast íslenska hestinum. Við erum með hænur, kindur, ketti og hunda, auk hestanna. Við erum ekki að fara að búa til neinn sýndarveruleika. Þetta er raunverulegur búgarður með starfsemi og við ætlum að leyfa fólki að skyggnast inn í þennan heim. Það er í rauninni málið,“ segir Sigga.

Íslenski hesturinn er í aðalhlutverki á Sólvangi.
Íslenski hesturinn er í aðalhlutverki á Sólvangi. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er mín von að íslenskar fjölskyldur muni heimsækja mig í sumar. Þetta er staður fyrir alla að koma nær íslenska hestinum. Hvort sem maður vill bara rétt sjá hann og klappa honum eða langar að verða fær keppnismaður sem vill bæta sig í sinni íþrótt. Þetta á að vera fyrir alla. Þetta er raunverulegt umhverfi íslenska hestsins. Þetta er ekki dýragarður, en þau eru hérna þessi dýr. Vandræðalega mörg!“ segir hún og hlær.

Íslenski hesturinn sýnilegur

Kaffihúsið verður opið alla daga milli 11 og 5. „Hér verða góðar heimabakaðar kökur,“ segir Sigga sem hyggst sjálf sjá um baksturinn. „Já, ég er ekki komin með starfsfólk skal ég segja þér, þannig að ég mun standa hérna vaktina,“ segir hún. „Svo verða hér góðar hrákökur líka og alltaf heitar vöfflur og mjög gott kaffi! Ég skal ná að gera listaverk af hesti í bollann, ég mun ekki hætta að æfa mig fyrr en það tekst!“ segir Sigga ákveðin.

Í einu horni kaffihússins má sjá ýmsar vörur til sölu; boli, teppi, lyklakippur og skartgripi. Allur varningur á eitt sameiginlegt, hesta má sjá á þeim öllum. „Þetta er Litla hestabúðin, hér eru minjagripir og listmunir tengdir hestum, eingöngu. Alveg frá því að ég var lítil var ég hrifin af svona, þá voru pennaveskin mín og pennar með hestum á. Ég kaupi ennþá svona hestadót handa börnunum mínum. Þannig að ég hugsaði: Það hlýtur að vera til fólk eins og ég. Og það er til! Sérstaklega eru konur hrifnar af þessu. Og það er til óhemjumikið handverk tengt íslenska hestinum.

Í framtíðinni er hugmynd að búa til gallerí með handverki tengdu íslenska hestinum og getur þá fólk sem það býr til komið saman á einum stað. Þá þarf ég náttúrlega að byggja við,“ segir Sigga hugsi. Og vílar það ekki fyrir sér. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert