„Allir vinir og ekkert vesen“ á Neistaflugi

Áttan mætti meðal annars á svæðið.
Áttan mætti meðal annars á svæðið. Ljósmynd/Neistaflug

„Það gekk bara alveg stórkostlega vel. Allir svakalega ánægðir, veðrið lék við okkur og bara dásamlegt í alla staði,“ segir Guðrún Smáradóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar Neistaflugs sem fram fór í Neskaupstað um helgina.

Guðrún telur að mun fleiri hafi mætt og tekið þátt í dagskrá hátíðarinnar í ár heldur en í fyrra, minnst 2.500 manns hafi verið á svæðinu. „Það var þétt setið, ég held að það sé svolítið síðan það var svona ofboðslega margt fólk,“ segir Guðrún.

Í gærkvöldi voru stórtónleikar Neistaflugs sem hófust með nokkrum rokklögum í flutningi hljómsveitarinnar Stelpurokks sem skipuð er ungum konum frá Neskaupstað. Þá tróð upp hljómsveitin Stuðlabandið sem síðan spilaði á stórdansleik í Egilsbúð í nótt þar sem var smekkfullt hús á balli til rúmlega fjögur í nótt.

Fjölbreytt dagskrá var á boðstólum alla helgina.
Fjölbreytt dagskrá var á boðstólum alla helgina. Ljósmynd/Neistaflug

Það var svo hljómsveitin Todmobile sem endaði stórtónleikana í gærkvöldi. „Það var alveg magnað. Þegar þeir slógu lokatóninn þá lýstist upp fjallið okkar af flugeldasýningunni. Þetta var eðalgott,“ segir Guðrún.

Þar að auki var fjölbreytt dagskrá á hátíðinni alla helgina þar sem meðal annars Killer Queen mætti á svæðið með Magna Ásgeirs í fararbroddi, hljómsveitin Dimma auk þess sem Áttan kom og gladdi unga fólkið svo fátt eitt sé nefnt.

Aðspurð segir Guðrún hátíðina hafa tekist vel í alla staði. „Allir vinir og ekkert vesen. Alla vega ekki sem ég veit um, ég hef ekki fengið neinar tilkynningar um það,“ segir Guðrún.

„Allir vinir og ekkert vesen
„Allir vinir og ekkert vesen" á Neistaflugi. Ljósmynd/Neistaflug
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert