WOW air greiði bætur vegna seinkunar

Seinkunin varð 19. júní á síðasta ári.
Seinkunin varð 19. júní á síðasta ári. mbl.is/Golli

Samgöngustofa hefur ákveðið að flugfélagið WOW air skuli greiða 400 evrur hverjum þeim farþega, sem kvartar til stofunnar vegna seinkunar á flugi félagsins 19. júní 2016 frá Keflavík til Amsterdam. Nemur upphæðin tæplega 50 þúsund íslenskum krónum.

Þetta kemur fram á vef Samgöngustofu. Segir í úrskurðum hennar, sem eru sjö talsins en varða þó fleiri farþega, að áætluð brottför hafi verið klukkan 06.05 þennan morgun og áætluð koma til Amsterdam 09.15. Fluginu hafi hins vegar seinkað og því hafi raunverulegur komutími verið 12.48, og seinkunin þannig upp á þrjár klukkustundir og 33 mínútur.

Flugfélagið vildi halda því fram að um óviðráðanlegt atvik hefði verið að ræða, vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Var það hins vegar mat Samgöngustofu að horfa yrði til þess að brottför flugvélarinnar hefði verið áætluð klukkan 06.05 en flugturninn aðeins verið lokaður á milli klukkan 09.00 og 09.30.

„Þannig verður ekki séð að hindrun hafi legið fyrir hjá [WOW air] við áætlaða brottför. Af þessum sökum er ekki fallist á þær röksemdir [WOW air] að um óviðráðanlegt atvik hafi verið að ræða,“ segir í einum úrskurðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert