Forsetinn heimsækir Mosfellsbæ

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og frú Eliza Reid, forsetafrú.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og frú Eliza Reid, forsetafrú. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid fara í opinbera heimsókn til Mosfellsbæjar á morgun í tilefni af þrjátíu ára afmæli bæjarins en hann hlaut kaupstaðarréttindi 9. ágúst 1987.

Fram kemur í fréttatilkynningu að forsetahjónin muni skoða ýmsa staði í bæjarfélaginu í heimsókninni sem ljúki með hátíðardagskrá í Hlégarði klukkan 16:30 sem verði opin öllum Mosfellingum meðan húsrúm leyfi.

Dagskráin hefst við skógræktina við Hamrahlíð þaðan sem haldið verður að Hrísbrú. Þar verður kynnt fornleifaverkefni sem þar hefur verið unnið að á liðnum árum. Næst verður haldið að Gljúfrasteini, Húsi skáldsins, þar sem stutt dagskrá fer fram með kynningu á starfsemi hússins. Þá verður haldið í gróðrarstöðina í Dalsgarði í Mosfellsdal og hún skoðuð.

Forsetahjónin koma síðan við í Krikaskóla eftir hádegi og hitta svo hóp eldri borgara úr Mosfellsbæ á Eirhömrum. Þá skoða gestirnir alifuglabúið á Reykjum og fara í Álafosskvosina en heimsókninni lýkur með dagskránni í Hlégarði klukkan 16:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert