„Erum miðpunktur ferðaþjónustunnar“

Tvö íbúðarhús voru flutt í heilu lagi til Víkur í …
Tvö íbúðarhús voru flutt í heilu lagi til Víkur í dag. Mynd/Jónas Erlendsson

Verið er að byggja og setja upp um tuttugu nýjar íbúðir og hús í Vík í Mýrdal um þessar mundir, en miklu fleiri íbúðir vantar til að anna eftirspurn, að sögn Ásgeirs Magnússonar, sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Bara í dag voru tvö íbúðarhús flutt í bæinn í heilu lagi og verið er að klára frágang þeirra svo nýir íbúar í Vík geti flutt inn og komið sér fyrir.

Þá er verið er að leggja lokahönd á nýja verslunarmiðstöð í bænum og til stendur hefja byggingu á tveimur hótelum í haust. Annað 100 herbergja og hitt 60.

3.800 fermetra verslunarmiðstöð tekin í notkun

„Í sveitarfélaginu eru í dag gistirými fyrir 1.500 til 1.600 manns. Bara hérna í Vík núna eru tvö hótel og tvö stór gistiheimili. Einna stærstu gististaðirnir í þessu sveitarfélagi eru reyndar utan þéttbýlis og þar er líka alltaf verið að byggja og stækka,“ segir Ásgeir. Hann telur að það það þurfi ekki færri en 150 manns í vinnu við þá uppbyggingu sem framundan er.

 „Við erum miðpunktur ferðaþjónustunnar. Það er bara þannig. Það er gríðarlega mikil uppbygging hjá okkur í ferðaþjónustunni. Verslunarmiðstöðin, 3.800 fermetra bygging, verður tekin í notkun í þessum og næsta mánuði,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is. Meðal þeirra verslana sem verða í verslunarmiðstöðinni eru ný verslun Ice Wear og Krónan. Þá er gert ráð fyrir þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn með fjölmörgum salernum og annarri tilheyrandi þjónustu, sem og stórum veitingasal.

Umferðin fimmfaldast á fimm árum 

Í Vík í Mýrdal búa núna tæplega 600 manns og hefur íbúum fjölgað mikið síðustu ár. Að sögn Ásgeirs er aðallega er um að ræða útlendinga sem koma hingað til lands til að starfa við ferðaþjónustu. Hann segir þessa miklu uppbyggingu og fólksfjölgun heldur betur lífga upp á bæjarlífið.

„þegar við skoðuðum skipulagsmálin fyrir fimm eða sex árum síðan þá gerðum við ráð fyrir því að í gegnum þetta þorp færu um 200 þúsund bílar á ári, en þeir verða örugglega að minnsta kosti milljón í ár. Þannig fjöldinn hefur fimmfaldast á þessum tíma. Ætli það fari ekki hérna í gegn með einu eða öðru móti um 1.700 til 1.800 þúsund manns á ári, sem bæði gista hér og fara héðan í ferðir og annað. Um síðustu helgi fóru í gegn hjá okkur 4.000 bílar á sólarhring.“

Er þetta töluvert meiri fjöldi ferðamanna en sveitarfélaginu óraði fyrir að gæti orðið raunin. „Við höfðum ekki látið okkur detta í hug að þetta yrði með þessum hætti, en það er auðvitað ánægjulegt. Það er nánast enginn munur orðinn á ferðaþjónustunni hér á sumrin og veturna. Traffíkin hér í janúar og febrúar í ár var svipuð og í júní í fyrra. Það er allt að gerast hérna hjá okkur.“

Ásgeir óttast ekki þá staðreynd að farið er að hægja á fjölgun ferðamanna og að búast megi við áframhaldandi samdrætti næstu misseri. „Við erum örugglega farin að sjá að það er að hægja á þessum vexti en það hægir lítið á umferðinni til okkar. Ef að menn verðleggja sig með skynsamlegum hætti í ferðaþjónustunni þá held ég að henni sé engin hætta búin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert