Fjölmenn og flott þrátt fyrir fjarveru Palla

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Páll Óskar verður ekki með …
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Páll Óskar verður ekki með í ár en gangan verður glæsileg engu að síður. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég held að það verði gaman að prófa að vera í Hljómskálagarðinum. Ég held að það gæti verið skemmtilegt og aðeins meira skjól,” segir Setta María sem situr í göngustjórn Gleðigöngu Hinsegin daga. „Við erum bara spennt fyrir að prófa eitthvað nýtt, það er alltaf gaman að breyta til.“

Undirbúningur Gleðigöngunnar hefur gengið vel að sögn Settu en gangan og hátíðarhöld að henni lokinni verða með nokkuð breyttu sniði í ár. Gengið verður frá Hverfisgötu að þessu sinni og um Lækjargötu og Fríkirkjuveg og loks endað í Hljómskálagarðinum þar sem gleðin heldur áfram. Margt nýtt verður á boðstólum í ár auk fastra liða eins og venjulega.

Þótt Páll Óskar Hjálmtýsson, sem jafnan hefur verið með stærstu og skrautlegustu atriðin göngunni, verði fjarri góðu gamni í ár kveðst Setta ekki eiga von á öðru en að gangan verði bæði fjölmenn og glæsileg í ár. „Það er alveg nóg af flottum atriðum,“ segir Setta en þetta er í áttunda sinn sem hún kemur að skipulagningu göngunnar. 

Svipað mörg atriði taka þátt í göngunni í ár að sögn Settu en í fyrra voru þau um 35 talsins. Þá er Gleðigangan einn fjölmennasti viðburður í Reykjavík en undanfarin ár er talið að á bilinu 70-90 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborgina og tekið þátt í göngunni.

Gönguleið Gleðigöngunnar 2017.
Gönguleið Gleðigöngunnar 2017. Kort/hinsegindagar.is

Ísland langt á eftir samanburðarlöndunum

„Dragsúgur verður örugglega með frekar stórt glamúr atriði og svo eru Samtökin´78 líka með flott atriði þar sem þau vekja athygli á stöðu Íslands á regnbogakorti um réttindi hinsegin fólks í Evrópu, ég held að það gæti verið svolítið athyglisvert,” segir Setta, spurð hvaða atriði gætu vakið athygli í ár.

Regnbogakortið sýnir hlutfall lagalegra réttinda sem allt hinsegin fólk nýtur í landinu en í þeim efnum gæti Ísland gert enn betur. “Við erum bara frekar neðar á þessum lista heldur en við erum almennt að tala um þegar við tölum um réttindi hinsegin fólks á Íslandi. Við erum í 47%, það er ansi neðarlega á lista. Við höngum þarna í miðjunni, langt fyrir neðan öll lönd sem við berum okkur saman við,” útskýrir Setta.

Aðspurð hvort mörg ný atriði verði á boðstólum í ár segir Setta alltaf vera einhverja fasta liði eins og venjulega auk annarra sem taka þátt í fyrsta sinn. „Svo er stundum líka fólk að koma frá öðrum löndum og núna veit ég til dæmis að það er ein fjölskylda sem ætlar að fagna því að barnið þeirra var að koma út úr skápnum. Þau eru ný og svo er fullt af flottum atriðum,” segir Setta.

Sjö fengu styrk úr Gleðigöngupotti

Gleðigöngupotturinn var stofnaður í sumar og er samstarfsverkefni Hinsegin daga og Landsbankans. Alls fengu sjö atriði styrk úr sjóðnum í ár sem námu á bilinu 100-250 þúsund krónur og er þeim ætlað að mæta kostnaði við atriði í göngunni.

Ávalt er margt um manninn í Gleðigöngu Hinsegin daga.
Ávalt er margt um manninn í Gleðigöngu Hinsegin daga. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við erum ofsalega spennt að sjá hvernig atriðin nýta þennan pening. Við erum með algjörlega auglýsingalausa göngu sem er svolítið einstakt í heiminum en það þýðir náttúrlega líka að fólk hefur haft aðeins minni pening til að skreyta atriðin sín,” segir Setta.

Lagið um liti regnbogans

Hún kveðst ekki hafa áhyggjur af veðrinu um helgina en samkvæmt núgildandi veðurspá stefnir í að verði hægur vindur og skýjað á höfuðborgarsvæðinu þegar gangan fer fram á laugardaginn. „Við sáum í gær að það var nú eitthvað að rætast úr þessari spá. En ef það er rigning þá dregur fólk bara upp litríkar regnhlífar, “segir Setta létt í bragði.

Að lokinni göngu verða tónleikar í Hljómskálagarðinum þar sem fram koma meðal annars Hinsegin kórinn og KK auk þess sem Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, mun taka lag Hinsegin daga í ár sem ber titilinn Litir regnbogans og er samið af þeim Örlygi Smári, Michael James Down og Primoz Poglajen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert