Hitti dauðadæmdan mann

Anna Lilja Ægisdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu …
Anna Lilja Ægisdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Amnesty International en hún hefur persónulega reynslu af því hvernig hver og einn getur haft áhrif á mannréttindabaráttu um allan heim. Ljósmynd/aðsend

Anna Lilja Ægisdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Amnesty International. Vill hún vekja athygli á því að venjulegt fólk getur haft áhrif á mannréttindabaráttu um allan heim en hún hefur persónulega reynslu á því hvernig undirskriftarsöfnun í Kringlunni bjargaði lífi manns.

„Ég fékk símtal frá Amnesty og þau spurðu hvort ég ætlaði ekki örugglega að hlaupa en það var ekki planið þá,“ segir Anna Lilja en hún hefur verið virkur meðlimur hreyfingarinnar og var meðal annars formaður ungliðahreyfingar Amnesty árin 2014 og 2015.

Anna Lilja hefur einu sinni tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu áður og hljóp þá einnig 10 kílómetra. Segir hún að þá hafi hún verið búin að undirbúa sig meira en í ár. Er hún ekki mikill hlaupari. „Ég er bara þessi venjulega stelpa sem fer út að hlaupa einu sinni og einu sinni en ekkert af ráði.“

Anna Lilja fór á kaf í mannréttindabaráttu og var meðal …
Anna Lilja fór á kaf í mannréttindabaráttu og var meðal annars formaður Ungliðahreyfingar Amnesty International hér á landi. Facebook/Ungliðahreyfing Amnesty International

Fór á kaf í mannréttindabaráttu

Áhugi Önnu Lilju á mannréttindabaráttu hófst þegar hún gekk inn á nýliðafund Amnesty International þegar hún var í menntaskóla. Þá voru þau að auglýsa eftir fólki í stjórnarstöður svo Anna Lilja bauð sig strax fram sem aðgerðarstjóra. Árið eftir varð hún svo formaður ungliðahreyfingarinnar.

„Ég fór alveg á kaf í mannréttindabaráttuna. Þetta var ótrúlega spennandi og áhugaverður tími,“ segir Anna Lilja.  

Hún segir að hlutverk ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi sé fyrst og fremst að vekja almenning til umhugsunar um mannréttindabrot sem eru framin um allan heim og fá fólk til þess að skrifa undir undirskriftarsafnanir til þess að berjast gegn þeim.

Vilja þau „sprengja loftbóluna sem margir eru í og upplýsa fólk um mannréttabrotin sem eru til staðar en við sjáum ekki á Íslandi,“ segir Anna Lilja.

Anna Lilja hitti Moses Akatugba sem dæmdur var til dauða. …
Anna Lilja hitti Moses Akatugba sem dæmdur var til dauða. Kom hann hingað til lands og þakkaði þeim fyrir vinnuna sem Amnesty lagði við að fá hann lausann. Facebook/Ungliðahreyfing Amnesty International

„Svo allt í einu stóð hann fyrir framan mann“

Anna Lilja hefur persónulega reynslu af því hvernig undirskriftarsöfnun í Kringlunni bjargaði lífi nígerísks manns sem hafði verið dæmdur til dauða fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Moses Akatugba var á leið heim úr skólanum, þá 15 ára, þegar hann var handtekinn og fluttur í gæsluvarðhald þar sem hann var hrottalega pyntaður. Hann var þvingaður til þess að skrifa undir játningu á glæp sem hann framdi ekki, það er, að stela tveimur farsímum. Var hann í varðhaldi í átta ár áður áður en dæmt var í málinu en fyrir dómstóli fékk hann ekki tækifæri til þess að tjá sig og var dæmdur til dauða.

Samtökin Amnesty International tók mál hans að sér, söfnuðu undirskriftum um allan heim og kröfðust réttlætis fyrir Moses með þeim afleiðingum að hann var látinn laus. Þar á meðal safnaði ungliðahreyfingin hér á landi undirskriftum. Í kjölfarið kom Moses til Íslands og hitti meðlimi hreyfingarinnar.

Moses Akatugba var hróttalega pyntaður og dæmdur til dauða fyrir …
Moses Akatugba var hróttalega pyntaður og dæmdur til dauða fyrir glæp sem hann framdi ekki og sat átta ár í fangelsi áður en Amnesty tókst að frelsa hann með undirskriftarsöfnunum. Ljósmynd/Amnesty International

Anna Lilja segir að það hafi verið óraunverulegt að hitta manninn í eigin persónu. „Við höfðum verið að berjast fyrir lausn hans í örugglega ár og maður var alltaf að tala um Moses og alltaf að berjast fyrir Moses, svo allt í einu stóð hann fyrir framan mann.“

Hún segir það hafa verið mikinn létti og viðurkenningu á starfinu. „Það að sjá einhvern sem maður hélt að væri að fara að deyja kominn og þakka manni persónulega fyrir var svo mikil viðurkenning fyrir vinnuna sem hver og einn lagði í þetta,“ segir Anna Lilja.

„Það leit oft út fyrir að þetta myndi ekki virka en þegar mörg þúsund undirskriftir úr öllum heiminum berast til stjórnvalda í Nígeríu eru þau undir mikilli pressu að bregðast við og það er einmitt þannig sem Amnesty virkar.“

Viljinn til þess að hjálpa öðrum

Anna Lilja hefur mikinn áhuga á mannréttindum og þjóðfélagsmálum en hún er nú í læknisnámi. Hún segir þetta tvennt haldast í hendur. „Viljinn til þess að hjálpa öðrum og það eru auðvitað mikil mannréttindi fólgin í því að fá læknisaðstoð.“

Hún stefnir að því að hlaupa 10 kílómetra á innan við klukkutíma. „Það væri geðveikt ef það væri hægt að safna einhverju fyrir samtökin, þau þurfa á því að halda,“ segir Anna Lilja en samtökin byggja alla afkomu sína af frjálsum framlögum.

Hægt er að heita á Önnu Lilju á Hlaupastyrkur.is.

Ljósmynd/Amnesty International
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert