Málið til saksóknara á næstunni

Sundlaug Sauðárkróks.
Sundlaug Sauðárkróks. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mál starfsmanns sundlaugarinnar á Sauðárkróki sem grunaður er um að hafa tekið ljósmyndir af kvenkyns gestum laugarinnar á laun, er komið til lögreglunnar á Akureyri þar sem rannsókn stendur yfir. Gert er ráð fyrir því að málið verði sent til héraðssaksóknara á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Manninum hefur verið vikið úr starfi í lauginni, en hann var kærður til lögreglu í júlí. Hann hafði starfað þar í nokkur ár.

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hjá lögreglu hversu lengi meint athæfi mannsins stóð yfir eða hversu margar myndir um ræðir. Eins og greint hefur verið frá herma heimildir að myndirnar hafi verið teknar í búningsklefa laugarinnar.

Eftir að maðurinn var kærður í síðasta mánuði var gerð húsleit hjá honum þar sem lagt var hald á tölvur og annan tækjabúnað í tengslum við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert