Ólíklegt að borgin útvegi námsgögn

Börn í Reykjavík fá líklega ekki ritföng í skólum.
Börn í Reykjavík fá líklega ekki ritföng í skólum. mbl.is/Styrmir Kári

Litlar líkur eru á því að Reykjavíkurborg útvegi grunnskólabörnum ókeypis námsgögn á næsta skólaári. Þetta segir S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, í samtali við Rúv. Að minnsta kosti 22 sveitarfélög ætla að útvega börnum ókeypis námsgögn á komandi skólaári. 

„Mér finnst nú ólíklegt að þetta náist fyrir skólaárið núna, en það virðist vera stemning fyrir að gera þetta, verja fjármunum með þessum hætti,“ sagði S. Björn í kvöldfréttum Rúv. 

Í lok mars lögðu þingmenn stjórnarandstöðu fram frumvarp um breytingu á grunnskólalögum. Frumvarpið komst ekki á dagskrá en lagt var til að ákvæði um að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja til ritföng og önnur gögn verði fellt brott. Einnig var lagt til að sveitarfélögum verði bættur sá útgjaldaauki með auknu framlagi úr ríkissjóði.

Ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að ekki megi mismuna börnum vegna félagslegrar stöðu eða stöðu foreldra hefur meðal annars verið notað sem rök fyrir því að mikilvægt sé að sveitarfélög útvegi börnum námsgögn að kostnaðarlausu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert