Styrktu fjölda geðheilbrigðisverkefna

Stjórn Allir gráta ásamt styrkhöfunum.
Stjórn Allir gráta ásamt styrkhöfunum. Ljósmynd/Allir gráta

Samtökin Allir gráta veittu í gær styrki fyrir um það bil tvær milljónir króna til verkefna sem hafa það að markmiði að efla geðheilsu barna og ungmenna á Íslandi. Hæsta styrkinn hlaut geðfræðslufélagið Hugrún, 900 þúsund krónur, til þess að reka Geðfræðsluvefinn og standa fyrir forvarnarfræðslu í grunn- og menntaskólum landsins.

Orri Gunnlaugsson, einn af stjórnarmönnum Allir gráta, segir að óháð matsnefnd sem var skipuð með aðkomu Rauða kross Íslands hafi farið yfir allar umsóknirnar sem bárust í styrktarsjóðinn en um mörg flott verkefni hafi verið að ræða. Öll verkefni sem stuðluðu að bættri geðheilsu barna og ungmenna á Íslandi gátu sótt í sjóðinn.

Litla Kvíðameðferðarstöðin fékk 540 þúsund króna styrk fyrir niðurgreiðslu á félagskvíðameðferð fyrir tólf einstaklinga á unglingsaldri, rithöfundurinn Huginn Þór Grétarsson fékk svo 500 þúsund kr. styrk fyrir barnabók sem mun hafa það að markmiði að útskýra fyrir börnum virkni tilfinninga og geðheilbrigði.

Unghugar Grófarinnar fengu 100 þúsund kr. styrk til að geta haldið áfram starfi sínu á Akureyri. Hópurinn er ætlaður einstaklingum sem glíma við geðræn vandamál og heldur vikulega viðburði þar sem ungmennin hittast og ræða saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert