50-70 manns munu hreinsa við Úlfljótsvatn

Svæðinu í kringum Úlfljótsvatn verður lokað yfir helgina.
Svæðinu í kringum Úlfljótsvatn verður lokað yfir helgina. mbl.is/Ragnheiður Davíðsdóttir

Um 50-70 manns munu taka þátt í hreinsunarstörfum við Úlfljótsvatn um helgina. Í dag verða þrifin undirbúin og munu þau hefjast á morgun. Gert er ráð fyrir að þeim ljúki einhvern tímann á sunnudag. Þá verður allt sótthreinsað sem gæti hafa verið snert, sameiginlegar vistarverur vel þrifnar og rúmföt og fatnaður soðinn.  

Skátabúðirnar verða hreinsaðar í kjölfar þess að skæð maga­k­veisa kom þar upp í gærkvöldi, sem er að öllum líkindum sökum nóró-veirunnar. 181 skáti og 15 starfsmenn búðanna haf­ast nú við í fjölda­hjálp­ar­stöð sem komið var upp í grunn­skól­an­um í Hvera­gerði. Þá var tekin ákvörðun um að svæðið í kringum skátabúðirnar og vatnið verði lokað yfir helgina. 

Skátabúðirnar verða hreinsaðar í kjölfar þess að skæð maga­k­veisa kom …
Skátabúðirnar verða hreinsaðar í kjölfar þess að skæð maga­k­veisa kom þar upp í gærkvöldi, sem er að öllum líkindum sökum nóró-veirunnar. mbl.is/Ragnheiður Davíðsdóttir

Sýnatöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er lokið á svæðinu en nú verða sýnin send til greiningar í Reykjavík. Niðurstöður úr þeim koma þó ekki fyrr en eftir helgi í fyrsta lagi, að sögn Hermanns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta. Auk rannsóknanna gerði heilbrigðisstofnunin mat á svæðinu en þar kom fram að öruggt væri að hefja þrif.

Samkvæmt upplýsingum frá Páli Sigurðssyni, úr stjórn skátabúðanna við Úlfljótsvatn, mun tjaldsvæði skátanna, sem nú er í sóttkví, ekki vera innifalið í þrifunum, heldur munu þeir sjálfir sjá um að þrífa það og ganga frá.

Fyllstu varúðar verður gætt og þá munu starfsmenn og sjálfboðaliðar meðal annars ganga með hanska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert