Á fleygiferð með þeim bestu

Kristín Edda Sveinsdóttir er hér fyrir miðri mynd í íslenska …
Kristín Edda Sveinsdóttir er hér fyrir miðri mynd í íslenska landsliðsbúningnum að keppa á Smáþjóðaleikunum, sem haldnir voru í San Marínó fyrr í sumar. Hún segir að hraði íþróttarinnar sé það sem heilli mest. Ljósmynd/David Robertson

Evrópumótið í götuhjólreiðum var haldið í Herning í Danmörku, dagana 2.-6. ágúst. Ísland átti sex fulltrúa á mótinu, fjóra karla og tvær konur. Keppt var í þremur flokkum karla og kvenna; yngri, U23 (19-22 ára), og úrvals. Hæst bar árangur Kristínar Eddu Sveinsdóttur í yngri flokki kvenna þar sem stelpur á aldrinum 17-18 ára keppa.

Kristín varð 24. af 87 keppendum og var hún jafnframt í fremsta hóp keppenda. Kom hún í mark á sömu sekúndu og sigurvegarinn en alls komu 30 í mark á nánast sama tíma. Er þetta einn besti árangur sem Íslendingur hefur náð í hjólreiðakeppni í útlöndum.

Aðspurð hvort hún hafi búist fyrirfram við svo góðum árangri í keppninni segir Kristín í samtali við Morgunblaðið að hún hafi alls ekki búist við því en hún var búin að eiga misheppnað keppnissumar sökum veikinda.

Viðraði illa til hjólreiða

Vegalengdin sem Kristín Edda hjólaði var 60 kílómetrar en mikil rigning var á keppnisdegi og hvasst. Mikið var um slys meðan á mótinu í Herning stóð og var það rakið til veðursins.

Aðspurð hver lykillinn sé að góðum keppnisárangri segir Kristín að mikilvægt sé að vera góður í að staðsetja sig rétt í hópi keppenda og hafa taktíkina á hreinu. Þá sé mikilvægt að halda í við fremsta hóp því keppendur eru dæmdir úr leik ef þeir dragast of mikið aftur úr.

Framtíðarskref Kristínar í hjólreiðum eru að hennar sögn að komast í lið í útlöndum og keppa í næsta flokki fyrir ofan, þ.e. U23, en sá flokkur er tiltölulega nýr innan götuhjólreiða kvenna. Hún hefur undanfarna mánuði æft og búið í Danmörku.

Keppnishjól í fermingargjöf

Kristín segir að áhugi sinn á hjólreiðum hafi vaknað þegar hún var í kringum fermingaraldur. Fékk hún keppnishjól í fermingargjöf og hefur æft af krafti síðan þá með Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Jafnframt segir hún að það sé hraðinn sem sé mest heillandi við íþróttina. Að hennar sögn er götuhjólreiðamenningin hér á landi alltaf að aukast með hverju ári. Þó sé þörf á fleira yngra fólki í íþróttina.

Mikil sókn í keppnishjólreiðum

Ísland sendi í fyrsta sinn fulltrúa á Evrópumót í götuhjólreiðum þegar mótið var haldið í Danmörku í byrjun ágúst. Íslenskir keppendur hafa hins vegar tekið þátt í heimsmeistaramótum og Evrópumótum í fjallahjólreiðum á síðustu árum, segir Maurice Zschirp, formaður hjólreiðasambandsins.

Um helgina fer Evrópumót í maraþon-fjallahjólreiðum fram þar sem Ísland verður með fulltrúa. Auk þess var Evrópumót í víðavangshjólreiðum (e. cross-country cycling) í lok júlí þar sem íslenskir keppendur tóku þátt. Maurice segir að mikil aukning hafi orðið í keppnishjólreiðum á Íslandi undanfarin ár. Auk þess æfi margt ungt og efnilegt hjólreiðafólk hjá ýmsum félögum og framtíðin sé björt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert