Kynnti afnám á uppreist æru

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun vinnu við frumvarp í ráðuneytinu um endurskoðun laga þar sem kveðið er á um uppreist æru og óflekkað mannorð. Stefnt er að því að ekki verði lengur í boði að veita uppreist æru.

Þetta segir Sigríður í samtali við mbl.is. „Ég kynnti ríkisstjórninni þær hugmyndir sem ég hef í þessum efnum og þá vinnu sem hafin er í ráðuneytinu við að skoða málið og greina þær lagabreytingar sem þurfa að eiga sér stað ef frumvarpið nær fram að ganga.“

Þannig verði ekki lengur um það að ræða að hægt verði að fá uppreist æru verði frumvarpið samþykkt á Alþingi en það verður á þingmálaskrá dómsmálaráðherra á komandi þingi. Sigríður segist aðspurð vona að hægt verði að leggja frumvarpið fram sem fyrst.

„Þetta kallar á skoðun margra lagabálka þar sem kveðið er á um óflekkað mannorð og skilyrði sem meðal annars eru sett fyrir embættisgengi. Meðal annars að skilgreina og orða betur hvaða skilyrði rétt er að setja í þeim efnum,“ segir ráðherrann ennfremur.

Sigríður sagði í samtali við Morgunblaðið í sumar að æra yrði ekki endurreist með einu pennastriki og að tryggja mætti möguleika á endurheimt borgaralegra réttinda dæmdra einstaklinga með öðrum og skýrari hætti í lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert